Vetrarfrí í Hafnarfirði – Komdu út að leika!

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

Vetrarfrí verður í grunnskólum og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar mánudaginn 20. og þriðjudaginn 21. október. Fjölmargt er hægt að gera í Hafnarfirði

Gott að verja vetrarfríinu í Hafnarfirði

Vetrarfrí verður í grunnskólum og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar mánudaginn 20. og þriðjudaginn 21. október.

Frítt er í sund í vetrarfríi grunnskólanna og söfnin bjóða spennandi dagskrá fyrir grunnskólabörn og fjölskyldur þeirra. Bókasafn Hafnarfjarðar er til dæmis með skemmtilega smiðju um Manga og persónusköpun. Nýr ratleikur verður á Byggðasafni Hafnarfjarðar.

Hafnarborg býður grunnskólabörnum í Hafnarfirði að koma og taka þátt í skapandi listasmiðjum á vegum safnsins. Smiðjurnar eru opnar öllum börnum og fjölskyldum þeirra sem vilja láta sköpunargleðina flæða og njóta þess að vinna með fjölbreyttan efnivið. Velkomið er að taka þátt annan eða báða dagana.

  • Hrekkjavöku-taupokasmiðja / Mánudaginn 20. október kl. 13-15
    Í þessari skapandi smiðju fá þátttakendur tækifæri til að leika sér með litina og hanna sinn eigin taupoka. Pokann má skreyta, teikna á eða mála eftir eigin hugmyndum og getur hann svo nýst á hrekkjavökunni – þegar farið er út á stjá til að safna gotteríi eða gera grikk – eða í öðrum haustverkefnum.
  • Hinn fjöltyngdi skógarskóli (Escola florestal) / Þriðjudaginn 21. október kl. 13-15
    Listamennirnir Fernanda Fajardo og Anne Rombach leiða listasmiðju fyrir fjölskyldu á íslensku, portúgölsku, spænsku, ensku og þýsku. Þátttakendur sækja innblástur í skóginn og skapa verur úr laufum, greinum og öðrum náttúrulegum efnivið í anda haustsins. Smiðjan er haldin í tengslum við viðburðadagskrá safnsins Á mínu máli.

Smiðjurnar í Hafnarborg fara fram í Apótekinu á fyrstu hæð safnsins en mælst er til að börn mæti í fylgd fullorðinna.

Margir möguleikar eru í Hafnarfirði til að létta lundina með útivist og hreyfingu. Á vef Hafnarfjarðarbæjar er hægt að nálgast fullt af hugmyndum af áhugaverðum stöðum að heimsækja, leik- og boltavellir eru víða og fjölmargar göngu- og hjólaleiðir liggja um Hafnarfjörð.

Heilsubærinn Hafnarfjörður óskar íbúum og vinum Hafnarfjarðar gleðilegs vetrarfrís! 

Ábendingagátt