Njótum útivistar í vetrarfríinu

Fréttir

Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur tekið saman hugmyndir að fjölmörgu sem fólk getur tekið sér fyrir hendur í vetrarfríinu.

Vetrarfrí er í grunnskólum Hafnarfjarðar fimmtudaginn og föstudaginn 22.-23. október og víðar um land. Söfn og sundlaugar í Hafnarfirði, líkt og á öllu höfuðborgarsvæðinu, eru lokuð og standa því ekki fyrir fjölbreyttri dagskrá eins og oft áður en bjóða þess í stað fram skemmtilegar hugmyndir til að njóta útivistar í vetrarfríinu.

Ferðumst innanhúss og upplifum nærumhverfið

Á upplýsingafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og landlæknis á mánudag var því beint til fólks að halda sig sem mest heima við, ferðast ekki að óþörfu og forðast hópamyndanir heima og að heiman vegna kórónuveirufaraldursins.  

Heilsubærinn Hafnarfjörður hefur tekið saman heilt stafróf af hugmyndum að fjölmörgu spennandi og skemmtilegu sem fólk getur tekið sér fyrir hendur heimavið eða í næsta nágrenni á tímum samkomubanns og sóttkvíar. Hugmyndirnar eru hugsaðir sem vegvísir að fjölbreyttum verkefnum en aðalmálið er að finna eitthvað nýtt og öðruvísi að gera, einn eða með fjölskyldunni.

Hér er hægt að nálgast heilt stafróf af hugmyndum til að gera heimavið eða í næsta nágrenni

140720_Hjarta_Flens_Takk-21

Hafnarfjörður er ævintýri líkastur og miklir möguleikar til útvistar og heilsueflingar 

Hafnarfjörður er fallegur bær frá náttúrunnar hendi. Bærinn er byggður í skeifu fyrir botni fjarðarins en í gegnum bæinn rennur Hamarskotslækur til sjávar. Landslag við Hafnarfjörð mótast af því að svæðið er við jaðar hins virka gosbeltis sem liggur um Reykjanesskaga og teygir sig norður í Langjökul. Einkennandi eru úfin kargahraun sem runnið hafa til sjávar og mynda grunn undir stórum hluta bæjarins og eru hans helsta einkenni. Upp úr hraunflákunum standa stakstæð fell sem eru áberandi kennileiti og má þar nefna Helgafell, Valahnjúka og Ásfjall, sem stendur næst byggðinni. 

HFJ_060820-13

Útivistarsvæði eru fjölbreytt að gerð þannig að allir geta fundið vettvang til útivistar við sitt hæfi, s.s. leik og sparkvelli . Sex holu frisbígolfvöllur er á Víðistaðatúni. Frisbígolf er leikið á svipaðan hátt og venjulegt golf nema að í stað golfkylfa og golfbolta eru notaðir frisbídiskar og í stað golfhola eru sér útbúnar körfur settar upp. Íþróttin hentar öllum aldurshópum og er skemmtileg fyrir alla fjölskylduna. Frítt er á völlinn og ekki nauðsynlegt að bóka fyrirfram. Upplýsingaskilti um leikreglur og skipulag vallar á Víðistaðatúni er að finna á túni fyrir neðan Víðistaðakirkju. Hér má einnig sjá vallarkort fyrir völlinn.

Heilsubærinn Hafnarfjörður óskar íbúum og vinum Hafnarfjarðar gleðilegs vetrarfrís!

Ábendingagátt