Vetrarhátíð er hafin – snjöll og sniðug upplifun í ár

Fréttir

Vetrarhátíð hófst í dag og mun standa yfir til sunnudags á öllu höfuðborgarsvæðinu. Í ár er áhersla lögð á útiveru og upplifun, list í almannarými, útilistaverk, menningarmerkingar og ljóslistaverk.

Vetrarhátíð hófst í dag og mun standa yfir til sunnudags á öllu höfuðborgarsvæðinu. Í ár er áhersla lögð á útiveru og upplifun, list í almannarými, útilistaverk, menningarmerkingar og ljóslistaverk. Gestir hátíðarinnar í Hafnarfirði eru hvattir til að upplifa ljósalist, taka þátt í fjölskyldusmiðju og snjallleiðsögn um útilistaverk, skella sér í bílabíó og á síðdegistónleika eða skella sér í sund og á safn! Frítt er á söfn bæjarins og í sund fyrir börn 17 ára og yngri.

Ljósalist, bílabíó og snjallleiðsögn

Í Hafnarfirði hafa Flensborgarskólinn og Hamarinn verið lýstir upp í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum, og listaverkum úr safneign Hafnarborgar varpað á austurvegg listasafnsins. Á laugardaginn bjóða Hafnarfjarðarbær og Kvikmyndasafn Íslands í bílabíó á bílastæðinu við Flensborgarskólann þar sem sýndar verða tvær klassískar íslenskar kvikmyndir, Regína og Með allt á hreinu. Bókasafn Hafnarfjarðar í samstarfi við Hafnarborg standa svo fyrir rafrænni samtvinnun forms og hljóðs í kringum útilistaverk miðbæjar Hafnarfjarðar og hafa lagt upp c.a. 40 mínútna göngu milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða og þannig fæst stutt innslag um hvert verk beint í snjallsímann.

IMG_6161Flensborgarskólinn og Hamarinn hafa nú verið lýstir upp í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum.

IMG_6125_1612439635730

Valin listaverk úr safneign Hafnarborgar munu birtast reglubundið á austurvegg listasafnsins alla daga Vetrarhátíðar. 

IMG_6151Fámennur hópur fylgdist með formlegri tendrun ljósa Vetrarhátíðar 2021 beint frá tjörninni við Hafnarborg. 

Síðdegistónar og útilistasmiðja

Söngvaskáldið Svavar Knútur ásamt hljómsveit kemur fram á fimmtu tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistónar í Hafnarborg föstudaginn 5. febrúar og verða tónleikarnir í beinu streymi á Facebook og hafnarborg.is. Á laugardag býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi útilistasmiðju fyrir utan Hafnarborg þar sem unnið verður með opinn efnivið. Þátttakendur eru hvattir til að gera tilraunir og skapa sín eigin útilistaverk og deila ljósmynd af afrakstrinum undir myllumerkinu #mitteigiðútilistaverk. Þátttaka í smiðjunni er gestum að kostnaðarlausu og allt efni verður á staðnum. Gestir Vetrarhátíðar 2021 eru hvattir til að klæða sig vel og sinna persónulegum sóttvörnum hvar sem þeir koma. Minnt er sérstaklega á að hægt er að fylgjast í rauntíma með fjölda gesta í sundlaugunum á vef bæjarins meðan Covid19 takmarkanir eru enn í gildi.

Sjá dagskrá Vetrarhátíðar í Hafnarfirði 

Góða skemmtun og gleðilega Vetrarhátíð heima í Hafnarfirði!

Ábendingagátt