Vetrarhátíð í Hafnarfirði 2019

Fréttir

Boðið verður uppá skemmtilega dagskrá á safnanótt sem tengist tölvum og tónlist og Júlladiskó í Ásvallalaug á sundlauganótt.

Vetrarhátíð verður haldin dagana 7. – 10. febrúar 2019 og fer hátíðin fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Þessi hátíð ljóss og myrkurs samanstendur af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt yfir 150 viðburðum þar sem fjöldi listamanna tekur þátt í að skapa einstaka stemningu í borginni.

Safnanótt verður haldin föstudagskvöldið 8. febrúar 2019 en þá opna 53 söfn dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00 til 23.00. Lögð verður áhersla á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.

Á Byggðasafninu, Bókasafninu og Hafnarborg verður boðið uppá skemmtilega og fjölbreytta dagskrá á safnanótt sem tengist tölvum og tónlist. Nemendur Tónlistarskóla Hafnarfjarðar koma fram á öllum stöðum í tilefni af degi tónlistarskólanna, boðið verður uppá forritunarkennslu og Fortnite danskennslu og gestum býðst að prófa sýndarveruleika og viðbótarveruleika í Bókasafninu.

Í Pakkhúsi Byggðasafnsins verður hægt að prófa leikjatölvur frá síðustu öld og Bjarki Þór Jónsson sagnfræðingur segir frá völdum brotum úr sögu tölvuleikja frá PONG til Fortnite. Í Beggubúð verður hægt að skoða magnaða muni í myrkrinu og Annríki – þjóðbúningar og skart sýna baðstofuverkin í Sívertsen húsi. 

Í Hafnarborg verður boðið upp á tónlistarsmiðju fyrir börn og foreldra, þar sem kynntir verða möguleikar íslenska tónlistarsmáforritsins Mussila og kvöldinu lýkur á Silent diskó  sem er einstök leið til að upplifa tónlist. Hlustendur dansa við tónlist sem berst í gegnum þráðlaus heyrnartól en fá um leið einstakt tækifæri til þess að upplifa myndlist.

Heildardagskrá safnanætur í Hafnarfirði

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður haldin laugardagskvöldið 9. febrúar 2019 en þá verður frítt í sund frá 17:00 til 22.00 í tólf sundlaugum Höfuðborgarsvæðisins. Uppákomur í laugunum verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að slaka á og njóta stundarinnar.

Ásvallalaug verður opin fram á kvöld og býður uppá skemmtilega dagskrá á Sundlauganótt laugardaginn 9. febrúar frá kl. 17-22.

Gestir í Ásvallalaug fá að upplifa einstaka kvöldstund þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Gestir eru hvattir til að taka þátt með því að dansa, syngja eða slaka á og njóta stundarinnar.

Heildardagskrá sundlauganætur í Ásvallalaug

Ljósalist

Á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu verða upplýstar í einkennislitum Vetrarhátíðar,  grænum og fjólubláum, auk þess sem ljóslistaverk verða á nokkrum lykilbyggingum á höfuðborgarsvæðinu; Hallgrímskirkju, Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands, Hörpu og Ráðhúsi Reykjavíkur.

Ábendingagátt