Vetrarhátíð í Hafnarfirði

Fréttir

Vetrarhátíð er haldin dagana 4. – 7. febrúar 2021.

Information in English about Winter light festival 2021

Vetrarhátíð verður haldin dagana 4. – 7. febrúar 2021. Vegna sóttvarnaráðstafana verður hátíðin með breyttu sniði í ár. Lögð verður áhersla á list í almannarými, útilistaverk, menningarmerkingar og ljóslistaverk.

Ljósalist

Í Hafnarfirði verður Flensborgarskólinn og Hamarinn upplýstir í einkennislitum Vetrarhátíðar, grænum og fjólubláum, og listaverkum úr safneign Hafnarborgar varpað á austurvegg listasafnsins. Í heild verða á þriðja tug bygginga á höfuðborgarsvæðinu lýstar upp í tilefni vetrarhátíðar og ljóslistaverkum varpað á nokkrar lykilbyggingar. Sjá nánar á vetrarhatid.is

Bilabio

Bílabíó – Viðburður á Facebook

Laugardaginn 6. febrúar bjóða Hafnarfjarðarbær og Kvikmyndasafn Íslands í bílabíó á bílastæðinu við Flensborgarskólann. Sýndar verða tvær íslenskar kvikmyndir, Regína (2001) kl. 18:00 og Með allt á hreinu (1982) kl. 20:00. Myndirnar verða sýndar á hágæða 16 m² LED skjá og verður hljóðinu streymt í útvarpið í bílunum á FM 106.1. Gæsluaðilar verða á staðnum og aðstoða við uppröðun bíla. Allir eru velkomnir meðan pláss leyfir.

Vegna sóttvarnarreglna er mikilvægt að bíógestir haldi sig innan bíls á meðan sýningu stendur og komi vel nestaðir því engin veitingasala er á staðnum.

Snjallleidsogn

Útilistaverk – snjallleiðsögn Hlustað á listaverk – viðburður á Facebook

Bókasafn Hafnarfjarðar í samstarfi við Hafnarborg standa fyrir rafrænni samtvinnun forms og hljóðs í kringum útilistaverk miðbæjar Hafnarfjarðar. Gönguleið í miðbænum leiðir fólk á milli valinna útilistaverka sem merkt eru með snjallkóða. Þegar sími er borinn upp að kóðanum birtast upplýsingar um verkið ásamt stuttu innslagi úr bókmenntaheiminum. Það tekur um 40 mínútur að heimsækja öll verkin og hlusta á hvert innslag fyrir sig. Gengið er á malbikaðri jafnsléttu og hentar gangan því öllum áhugasömum ótengt atgervi og aldri.

Utilistaverk-snjallleidsogn

 

Síðdegistónar í Hafnarborg – Svavar Knútur ásamt hljómsveit – viðburður á Facebook

Á fimmtu tónleikum tónleikaraðarinnar Síðdegistónar í Hafnarborg Föstudaginn 5. febrúar kemur fram söngvaskáldið Svavar Knútur ásamt hljómsveit sem skipa þau Ingibjörg Elsa Turchi á bassa, Svanhildur Lóa Bergsveinsdóttir á trommur og Andrés Þór á gítar. Á efnisskránni verður sannkölluð söngvaskáldaveisla en mun hljómsveitin leika mörg af helstu lögum Svavars sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarið, lög af plötunum Ölduslóð, Brot, Ahoy! Side A og Bil. Tónleikarnir hefjast klukkan 18:00 og standa yfir í um klukkustund. Opið er fyrir áhorfendur í takmörkuðu mæli og eru gestir beðnir um að panta sér ókeypis miða í síma 585 5790 á opnunartíma safnsins. Tónleikunum verður einnig streymt á Facebook og á www.hafnarborg.is. Grímuskylda er á tónleikunum hjá gestum og tveggja metra fjarlægð skal höfð milli óskyldra aðila.

 

 

Mitt eigið útilistaverk – útilistasmiðja í Hafnarborg – viðburður á Facebook

Laugardaginn 6. febrúar kl. 14 – 16 býður Hafnarborg fjölskyldum að koma og taka þátt í skapandi útilistasmiðju í tilefni af Vetrarhátíð. Áhersla hátíðarinnar í ár eru útilistaverk en í safneign Hafnarborgar eru mörg slík verk sem staðsett eru víða um Hafnarfjörð. Í smiðjunni verður unnið með opinn efnivið og eru þátttakendur hvattir til að gera tilraunir og skapa sitt eigið útilistaverk stór og smá. Þegar þátttakendur hafa skapað sitt eigið útilistaverk er svo upplagt að deila ljósmynd af afrakstrinum undir myllumerkinu #mitteigiðútilistaverk

Safnanótt

Með tilliti til nýjustu sóttvarnarreglna þá hefur sú ákvörðun verið tekin að fresta Safnanótt 2021 fram í maí með þeim fyrirvara að sóttvarnarreglur verði orðnar rýmri.

Sundlauganótt

Sundlauganótt verður ekki haldin í ár en kemur sterk inn á Vetrarhátíð 2022.

Við minnum á að frítt er fyrir börn 17 ára og yngri í sundlaugar í Hafnarfirði og hægt er að nálgast rauntímaupplýsingar um fjölda gesta í sundlaugunum á vef lauganna meðan takmarkanir vegna COVID-19 eru í gildi.

Þátttakendur í Vetrarhátíð í Hafnarfirði eru hvattir til að klæða sig vel og sinna persónulegum sóttvörnum. 

 

Ábendingagátt