Vetrarhátíð um helgina – líka í Hafnarfirði

Fréttir

Fjölbreytt dagskrá og frítt inn á alla viðburði. Söfnin í Hafnarfirði og Ásvallalaug taka virkan þátt í Vetrarhátíð með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá fyrir alla aldurshópa. Vetrarhátíð er haldin dagana 1. -3. febrúar og fer fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í Hafnarfirði nær dagskráin til Ásvallalaugar, Bókasafns Hafnarfjarðar, Hafnarborgar og Byggðasafns Hafnarfjarðar. Gestir eru jafnframt hvattir til að nota tækifærið og upplifa og njóta ljósadýrðarinnar í Hellisgerði.

Fjölbreytt dagskrá og frítt inn á alla viðburði

Söfnin í Hafnarfirði og Ásvallalaug taka virkan þátt í Vetrarhátíð með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá fyrir alla aldurshópa. Vetrarhátíð er haldin dagana 1. -3. febrúar og fer fram í öllum sex sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Í Hafnarfirði nær dagskráin til Ásvallalaugar, Bókasafns Hafnarfjarðar, Hafnarborgar og Byggðasafns Hafnarfjarðar. Gestir eru jafnframt hvattir til að nota tækifærið og upplifa og njóta ljósadýrðarinnar í Hellisgerði en með hækkandi sól strax eftir Vetrarhátíð verður hafist handa við að taka ljósin niður. Þessi hátíð ljóss og myrkurs, og haldin hefur verið um árabil, samanstendur af þrem meginstoðum: Safnanótt, Sundlauganótt og ljósalist ásamt fjölbreyttum viðburðum þar sem hópur listafólks tekur þátt í að skapa einstaka stemningu á höfuðborgarsvæðinu.

Sundlauganótt í Hafnarfirði

Ásvallalaug fimmtudaginn 1. febrúar frá kl. 18-22

Ásvallalaug verður opin fram á kvöld og í boði skemmtileg dagskrá frá kl. 18-22 en þá verður frítt í sund í laugina líkt og í tólf öðrum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu. Gestir í Ásvallalaug fá að upplifa öðruvísi kvöldstund í lauginni þar sem ljós, myrkur og gleði verða allsráðandi. Sundfélag Hafnarfjarðar býður öllum að koma á opna æfingu hjá Görpunum kl.20 og blæs til bombukeppni um stærstu gusuna kl.19:30 og aftur kl. 20:30. Hin eina sanna Eva Ruza mætir á svæðið og stýrir sundlaugarbingói fyrir alla fjölskylduna. Laufléttir og skemmtilegir vinningar í boði.  Foreldraráð Sundfélags Hafnarfjarðar verður með veitingasölu í anddyri laugarinnar.

Safnanótt í Hafnarfirði

Hafnarborg, Byggðasafn og Bókasafn Hafnarfjarðar föstudaginn 2. febrúar frá kl. 18-22

Á Byggðasafni Hafnarfjarðar, Bókasafni Hafnarfjarðar og í Hafnarborg verður boðið upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá á Safnanótt föstudagskvöldið 2. febrúar en þá opna fjölmörg söfn á öllu höfuðborgarsvæðinu dyr sínar.

Bókasafn Hafnarfjarðar

Á Bókasafni Hafnarfjarðar hefst dagskráin kl. 18 þegar Mæja litla jarðarber úr Ávaxtakörfunni mætir á svæðið og verður með barnatónleika. Einnig verður Galdratáknasmiðja með Otiliu Martin, kynning á starfi safnsins, hljóðsaga, opið í djammhornið auk þess sem gestum býðst að prófa ýmis tæki safnsins eins og vinylpressu og barnmerkjavél.

Byggðasafn Hafnarfjarðar

Á Byggðasafni Hafnarfjarðar verður ratleikur um Pakkhúsið, Sívertsenhús og Beggubúð, Annríki mun sýna baðstofuverkin í Sívertsen-húsi og Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur flytur fyrirlesturinn „Máninn og myrkrið í íslenskum þjóðsögum“. Að lokum mun Listahópurinn Klassík flytja íslenska og erlenda tónlist.

Hafnarborg

Í Hafnarborg leiðir forstöðumaður hússins gesti um yfirstandandi sýningar. Tríó Halla Guðmunds kemur fram á síðdegistónleikum kl. 18 og gestir geta hugað að jarðtengingu og innri ró með því að taka þátt í Nidra hugleiðslu kl. 19:30.

Áhersla á óhefðbundna, litríka og líflega viðburði

Á Safnanótt leggja fjölmörg og ólík söfn á höfuðborgarsvæðinu áherslu á að bjóða upp á óhefðbundna, litríka og líflega viðburði þetta kvöld og veita gestum nýja sýn á söfnin. Íbúar og gestir á öllum aldri geta notið Safnanætur fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu.  Ljósaslóð Vetrarhátíðar verður í lykilhlutverki um helgina en það er gönguleið frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíg og niður á Austurvöll sem vörðuð er með ljóslistaverkum. Þessi ljóslistaverk munu lýsa upp miðbæinn frá kl. 18:30–22:30 alla daga Vetrarhátíðar. Gestir geta því notið útiveru og upplifunar utandyra með sínum nánustu á sínum eigin hraða. Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar eru hvattir til að nota tækifærið um helgina og upplifa ljósdýrðina í Hellisgerði. Að Vetrarhátíðinni lokinni verður hafist handa við að taka jólaljósin niður með hækkandi sól.

Góða skemmtun og gleðilega Vetrarhátíð heima í Hafnarfirði og höfuðborgarsvæðinu öllu!

 

Ábendingagátt