Við bjóðum heim á aðventunni

Fréttir

Miðbærinn í Hafnarfirði hefur iðað af lífi og jólafjöri á aðventunni. Jólaþorpið í Hafnarfirði er að sigla inn í sína síðustu aðventuhelgi þetta árið nú um helgina. Metaðsókn, hvorutveggja gesta og söluaðila, hefur verið í Jólaþorpið í ár. Veðrið hefur leikið við landann og Hafnfirðingar nýtt tækifærið og boðið áhugasömum heim í bæinn sinn á aðventunni.

Miðbærinn í Hafnarfirði hefur iðað af lífi og jólafjöri á aðventunni. Jólaþorpið í Hafnarfirði er að sigla inn í sína síðustu aðventuhelgi þetta árið nú um helgina og verður opið laugardag og sunnudag frá kl. 12-17. Metaðsókn, hvorutveggja gesta og söluaðila, hefur verið í Jólaþorpið í ár. Veðrið hefur leikið við landann og Hafnfirðingar nýtt tækifærið og boðið áhugasömum heim í bæinn sinn á aðventunni.

Jólaþorpið í Hafnarfirði er opið í fjórtánda sinn nú í ár. Þessi vinsæla bæjarhátíð að vetri til hefur þróast úr því að vera heimilisleg jólahátíð fyrir Hafnfirðinga í það að vera heimilisleg jólahátíð fyrir landsmenn alla og í auknu mæli fyrir erlenda ferðamenn. Umfang jólahátíðarinnar hefur vaxið milli ára og er nú svo komið að jólahúsin sem rísa á Thorsplani og á Strandgötunni í Hafnarfirði hafa sjaldan verið jafn mörg, fjölbreytt og vinsæl og í ár. Jólaþorpið er vettvangur fyrir menningar- og upplifunarferð fyrir alla fjölskylduna á aðventunni. Ferð sem felur m.a. í sér göngu um Thorsplan milli fagurlega skreyttra jólahúsa þar sem syngjandi glaðir sölumenn bjóða fjölbreytta gjafavöru, hönnun og íslenskt handverk. Hestaferðir um miðbæ Hafnarfjarðar hafa vakið mikla lukku og ókeypis myndataka í boði Desæna setursins í Verslunarmiðstöðinni Firði slegið í gegn meðal fjölskyldna og vinahópa sem samhliða hafa notað tækifærið og litið við á Popup markað Íshúss Hafnarfjarðar, listasýningu í Hafnarborg og í þeim fjölda verslana sem finna má á miðbæ Hafnarfjarðar.  „Við höfum náð að halda þessu heimilislega yfirbragði þrátt fyrir aukið umfang og stækkun hátíðarinnar. Jólaþorpið í Hafnarfirði er má segja safnhátíð þó svo að þorpið sem slíkt sé í umsjón Hafnarfjarðarbæjar. Jólaþorpið er orðið að því sem það er í dag fyrir samstarf fyrirtækja og einstaklinga á svæðinu og fyrir þann vaxandi fjölda innlendra og erlendra gesta sem sækir þorpið heim á aðventunni“ segir Árdís Ármannsdóttir samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar. „Við erum afar stolt af þessari jólahátíð okkar sem sýnir svo glöggt samfélagsandann í Hafnarfirði og þá stemningu sem við viljum vera þekkt fyrir; rólegheit, léttleika, húmor, heilsu og hamingju og það fyrir alla fjölskylduna“ bætir Árdís við.

Thorsplanið verður fullt af lífi og fjöri á síðustu helgi aðventunnar og litlu jólahúsin orðin landsþekktur söluvettvangur lista, handverks og hönnunar. Það ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um helgina, hitt hressa jólasveina á göngu sinni um Strandgötuna, spjallað við Grýlu, hlýtt að fallega jólatóna og dansað í kringum jólatréð á jólaballi kl. 15 á sunnudaginn.

Allt um dagskrá helgarinnar á hafnarfjorður.is: http://www.hafnarfjordur.is/mannlif/vidburdir/vidburdir-framundan/jolathorpid-i-hafnarfirdi-3

Svipmyndir frá Jólaþorpinu: https://www.facebook.com/pg/J%C3%B3la%C3%BEorpi%C3%B0-%C3%AD-Hafnarfir%C3%B0i-256025207766666/photos/?tab=album&album_id=1184096894959488

Ábendingagátt