Við bjóðum HEIM í Hafnarfjörð

Fréttir

Við bjóðum HEIM í Hafnarfjörð á fyrstu bæjarhátíð sumarsins! Framundan eru Bjartir dagar í Hafnarfirði 16. – 23. apríl þar sem stofnanir bæjarins, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa fyrir fjölbreyttum viðburðum.

Við bjóðum HEIM í Hafnarfjörð á fyrstu bæjarhátíð sumarsins!

Framundan eru Bjartir dagar í Hafnarfirði 19.-23. apríl þar sem stofnanir bæjarins, félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar standa fyrir fjölbreyttum viðburðum.

 

  • HEIMA – tónlistarhátíð í heimahúsum síðasta vetrardag
  • Sumardagurinn fyrsti á Víðistaðatúni
  • Gakktu í bæinn – söfn og vinnustofur listamanna opnar á föstudagskvöld
  • Bræðralag – stórtónleikar Friðriks Dórs og Jóns Jónssonar í samstarfi við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Lækjarskóla

 

Sérstök áhersla er lögð á þátttöku barna og unglinga enda er Sumardagurinn fyrsti hluti af hátíðarhöldunum. Ýmsir tónlistarviðburðir skipa stóran sess í dagskrá Bjartra daga í ár og á föstudagskvöld verða söfn og vinnustofur listamanna opnar fram á kvöld. Þá standa einstaklingar, kórar og ýmis félagasamtök að fjölbreyttum viðburðum og menningarstofnanir bæjarins bjóða uppá skemmtilega dagskrá.

Tónlistarhátíðin HEIMA fer nú fram í fjórða sinn og hefur sannarlega fest sig í sessi sem skemmtileg og öðruvísi tónlistarhátíð sem býður upp á öðruvísi upplifun og meiri nánd en tónleikagestir sem og listamenn eiga að venjast. Fjölskyldur munu sem fyrr opna heimili sín í miðbæ Hafnarfjarðar og í hverju húsi spila tveir mismunandi listamenn eða hljómsveitir. Í ár eru listamennirnir þrettán talsins og koma þeir allir fram tvisvar í sitthvoru HEIMA-húsinu í miðbænum. Það eru ekki allir að spila á sama tíma þannig að þeir sem eru duglegastir að rölta milli húsa geta séð sem ansi mörg atriði.

Fjölbreytt fjölskyldudagskrá verður á Sumardaginn fyrsta á Víðistaðatúni. Dagurinn hefst á víðavangshlaupi og endar á kassabílarallý auk þess sem bæjarbúum verður boðið að sigla á seglkænum og kjölbátum við Flensborgarhöfn.

Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur meðal annars endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn þegar listamenn, hönnuðir og handverksfólk á svæðinu frá smábátahöfninni að miðbæ Hafnarfjarðar opna vinnustofur sínar og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn. Þá láta Hafnarborg og Byggðasafnið sitt ekki eftir liggja þetta kvöld og hafa opið til kl. 22. Í Hafnarborg verður sérstaklega farið yfir feril bæjarlistamanns Hafnarfjarðar sem verður útnefndur síðasta vetrardag ásamt því að Menningar- og ferðamálanefnd veitir styrki til viðburða og menningarstarfsemi.

Bræðralag stórtónleikar með þeim bræðrum Friðrik Dór og Jóni Jónssyni verða í Íþróttahúsinu Strandgötu laugardaginn 22. apríl kl. 14 og 16. Flutt verða 12 lög sem hafa verið útsett af kennurum Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Um 200 nemendur tónlistarskólans og frá kór Lækjarskóla flytja lög eins og Fröken Reykjavík, Ljúft að vera til, Gefðu allt sem þú átt og fleiri. Æfing fer fram 19. apríl og lokaæfing í íþróttahúsinu kl. 18 föstudaginn 21. apríl og þá gefast góð tækifæri til þess að taka ljósmyndir eða vera með beina útsendingu.

Nánari upplýsingar um Bjarta daga veitir Andri Ómarsson í síma 664 5779

Nánari upplýsingar um HEIMA veitir Henny María Frímannsdóttir í síma 893 3183

 

 

Ábendingagátt