Við erum ÖLL barnavernd. Leyfum okkur að vera forvitin

Fréttir

Barnavernd er dæmi um þjónustu sveitarfélagsins sem þarf að haldast órofin á öllum viðbúnaðarstigum almannavarna. Barnavernd er samstarfsverkefni allra þeirra sem vinna með börnum og hins almenna borgara sem oft á tíðum er í betri aðstöðu til að fylgjast með aðstæðum barna og tilkynna til barnaverndar ef það er eitthvað í umhverfi eða umgjörð barna sem vekur athygli eða spurningar.  

Barnavernd er dæmi um þjónustu sveitarfélagsins sem þarf að haldast órofin á öllum viðbúnaðarstigum almannavarna. Barnavernd er samstarfsverkefni allra þeirra sem vinna með börnum og hins almenna borgara sem oft á tíðum er í betri aðstöðu til að fylgjast með aðstæðum barna og tilkynna til barnaverndar ef það er eitthvað í umhverfi eða umgjörð barna sem vekur athygli eða spurningar.  

Tilkynning til barnaverndarnefndar er ekki kæra heldur fremur beiðni um aðstoð fyrir viðkomandi barn eða fjölskyldu sem tilkynnandi telur að sé hjálparþurfi. Hægt er að senda tilkynningu í gegnum ábendingaform barnaverndar  eða hringja í síma 585-5500 á opnunartíma þjónustuvers Hafnarfjarðarbæjar alla virka daga frá kl. 8-16. Samband við bakvakt á kvöldin og um helgar fer í gegnum neyðarlínuna 112.

Leyfum okkur að vera forvitin um aðstæður barna og ungmenna

Almennt er eftir því óskað að almenningur fylgist vel með aðstæðum barna og tilkynni til barnaverndar ef aðstæður sem börn búa við virðast óviðunandi. Það er ekki síður mikilvægt á þessum óvenjulegu og erfiðu tímum sem samfélagið er að upplifa þessa dagana. Nú eru börn og fjölskyldur þeirra meira heima yfir daginn án rútínu og hefðbundinna starfa. Skóli og leikskóli er skertur, fjölskyldur fara minna í heimsókn til vina og ættingja og reglubundið íþrótta- og tómstundastarfs hefur fallið niður. Ofan á þetta hefur í einhverjum tilfellum bæst að fólk hefur áhyggjur af afkomu sinni, samkomubönnum og veirunni sjálfri sem aukið getur kvíða og vanlíðan bæði hjá foreldrum og börnum. Þá búa ekki öll börn við það að eiga foreldra sem eru hugmyndaríkir að búa til dagskrá með verkefnum og samverustundum fyrir alla fjölskylduna. Þeir sem eru veikastir fyrir eiga enn erfiðara nú en áður og því reynir mikið á þessi börn og fjölskyldur þeirra. Áfengi og vímuefnaneysla getur aukist og því miður ofbeldi samfara því bæði gagnvart fullorðnum og ekki síður börnum. 

Tökum höndum saman og látum vita

Starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hvetur íbúa og vini Hafnarfjarðar til að fylgjast vel með börnum og ungmennum í þeirra umhverfi og minnir á að tilkynningaskylda til barnaverndar hefur aldrei skipt meira máli en nú. Leyfum okkur að vera forvitin um börn og hagi þeirra. 

 

 

Ábendingagátt