Við erum þorpið: Fræðsla um ungt fólk og vímuefni

Fréttir

Rætt verður um vímuefni og ungt fólk við foreldra, forsjáraðlila og önnur áhugasöm í Víðistaðaskóla undir merkjum fundarraðarinnar Við erum þorpið á miðvikudagskvöld. 8. bekkingar Hafnarfjarðar hafa nú flestir fengið fræðslu Heilsulausna. Foreldrarnir fá að kynnast starfinu líka og hvernig þeir geta best stutt við unga fólkið sitt.

Fræðslufundur fyrir foreldra og öll áhugasöm

„Tilfinningin er að unglingadrykkja sé að verða meira áberandi og við finnum líka að ungmennunum sjálfum finnst ekki tiltökumál að nota nikótínpúða,“ segir Andrea Ýr Jónsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Heilsulausna. Hún segir þó að rannsóknirnar sýni ekki mikla aukningu en tilfinningin sé þó þessi og það sem skólastjórnendur tali um.

Andrea fer yfir málið á fræðslufundi fyrir foreldra, forsjáraðila og öll áhugasöm í salnum í Víðistaðaskóla á miðvikudagskvöld. Fundurinn hefst kl. 20 og stendur til 21.30.

Hitta 8. bekkinga Hafnarfjarðar

Heilsulausnir hafa nú hitt flestalla 8. bekkinga Hafnarfjarðar með vímuefnafræðsluna VELDU. Fræðslan hefur það að markmiði að upplýsa um skaðsemi, ávanabindingu og styrkja sjálfsmynd. Hjúkrunarfræðingar sinna fræðslunni og er allt fræðsluefni byggt á gagnreyndum og nýlegum heimildum.

Andrea Ýr Jónsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri Heilsulausna.

„Við förum yfir þau einkenni sem foreldrar eiga að fylgjast með og hvernig þeir eiga svo að bregðast við, taka samtalið, vera fyrirmyndir og hjálpa ungmennunum sínum að byggja upp sjálfsmyndina,“ segir Andrea.

„Það skiptir máli hvernig við tölum um hlutina við unglingana okkar; vera ekki að skamma, banna, hóta. Heldur reyna að vera yfirveguð, tala rólega, sýna skilning en um leið að það sé áberandi hvaða afstöðu þú hefur,“ segir hún.

Velja rétta tóninn og ræða málið

„Þó að foreldrar drekki sjálfir áfengi og noti nikótín er mikilvægt  að tala ekki um það í jákvæðu ljósi. Passa hver hlustar,“ segir Andrea. Foreldrar þurfi að grípa tækifærin til að ræða málin við unglingana þegar þau gefist.

Andrea segir unga fólkið okkar safna upplýsingum öðruvísi en við fullorðna fólkið. „Við gúgglum en krakkar í dag spyrja vini sína. Þá er það umhverfið sem ræður,“ bendir hún á.

Fundurinn er sem áður sagði á miðvikudagskvöld. Auk Andreu fer Stella Björg Kristinsdóttir, fagstjóri frístundastarfs og forvarna hjá Hafnarfjarðarbæ, yfir það hvað tölurnar eru að segja okkur og hvernig við getum enn betur stutt við unga fólkið okkar.

Andrea hvetur okkur öll til að mæta á fundinn. „Klárlega. Það skiptir svo miklu máli að við sem foreldrar tökum samtalið heimafyrir og séum tilbúin til þess.“

Já, þetta er frábært tækifæri til að skerpa á samskiptatækninni gagnvart unga fólkinu okkar.

Ábendingagátt