Sýningar Hafnarborgar verða opnar eins og venjulega á þjóðhátíðardaginn 17. júní kl. 12-17 en auk þess mun Annríki halda sérstaka þjóðbúningasýningu í Apótekinu á jarðhæð safnsins, líkt og hefð hefur skapast fyrir í safninu undanfarin ár.

Sýningin nefnist Fjallkonan: „[A]f yðar mynd er Ísland kallað „fjallkonan fríð““. Í tilefni af 80 ára afmæli íslenska lýðveldisins verður fjallað um hugmyndir Sigurðar málara Guðmundssonar um sérstakan íslenskan þjóðbúning kvenna sem skrýða skyldi allar fjallkonur Íslands. Skautbúningur og kyrtlar, handverk og tíska verður í aðalhlutverki en einnig konurnar sem unnu að búningagerðinni ásamt Sigurði. Í tengslum við sýningu Annríkis bendum við svo á að þjóðbúningamyndataka fer fram við Hafnarborg kl. 15.

Í bogastofunni á efri hæð safnsins verða einnig til sýnis verk eftir þátttakendur sumarnámskeiðs Hafnarborgar í myndlist.

Um yfirstandandi sýningar safnsins

Í aðalsal Hafnarborgar stendur sýningin Í tíma og ótíma. Á sýningunni er sjónum beint að margvíslegum birtingarmyndum tímans í verkum ‏þ‏‏riggja alþjóðlegra samtímalistakvenna, Örnu Óttarsdóttur, Amy Brener og Leslie Roberts. Tíminn er skoðaður í víðu samhengi, allt frá heimspekilegum vangaveltum um hugtak og eðli hans, til þeirrar persónulegu túlkunar á samtímanum sem einkennir verkin. Hugleiðingarnar um tíma fléttast á mismunandi hátt inn í verk ‏og vinnuaðferðir allra þriggja listakvennanna.

Í Sverrisal er svo einkasýning Guðnýjar Guðmundsdóttur, Kassíópeia. Á sýningunni getur að líta mestmegnis ný og nýleg verk eftir listakonuna, sem hún vinnur á pappír og í leir, auk vídeóverka. Þá speglar hún sjálfa sig í verkunum og dregur fram pælingar um sært egó, sjálfsupphafningu og sjálfselsku, þar sem innblástur er sóttur í gríska goðafræði.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt