Á Bleika deginum eru landsmenn allir hvattir til að vera bleikir – fyrir okkur öll. Bera bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Í ár er sérstök athygli á mikilvægi aðstandenda. Hafnarfjörður er baðaður í bleikum ljósum og ljóma þessa dagana. Bleikt hjarta við Bókasafn Hafnarfjarðar, bleikt ráðhús, bleik kirkja, bleikur tónlistarskóli, bleik Fjörukrá og auk þess sem einhverjir húseigendur hafa farið þá leið að lýsa upp trén í garðinum sínum með bleiku ljósi. Hafnarfjarðarbæ hvetur íbúa og Hafnfirðinga og vini Hafnarfjarðar til að taka bleikan göngutúr í fallegu haustveðrinu.

Bleiki dagurinn verður miðvikudaginn 23. október

Ýmsar hugmyndir- heima og að heiman

  • Bleikt morgunkaffi
  • Bleikur hádegisverður
  • Skreyta vinnustaðinn
  • Klæðast einhverju bleiku
  • Hafa verðlaun fyrir fatnað og skreytingar

Sendið sögur og myndir

Krabbameinsfélagið hvetur alla til að senda sér skemmtilegar, bleikar myndir af sér og vinahópum eða vinnufélögum á netfangið: bleikaslaufan@krabb.is og mun félagið birta þær á facebooksíðu Bleiku slaufunnar. Merkið myndirnar #bleikaslaufan

Árverknisátak gegn krabbameinum

Bleikur október er árlegi árverknistími tileinkaður baráttunni gegn krabbameinum í konum. Í ár beinir Krabbameinsfélagið athyglinni að aðstandendum undir slagorðinu „Þú breytir öllu”. Á vef Krabbameinsfélagsins segir: „Við viljum þakka þeim sem hvorki búast við né ætlast til að fá þakkir, fólkinu sem er svo mikilvægt en á það til það að gleymast – aðstandendum.“ Á síðunni er einnig greint frá því að á Íslandi greinist að meðaltali 971 kona með krabbamein á ári hverju. „Sem betur fer eru stöðugar framfarir í greiningu og meðferð sem leiða til þess að fleiri og fleiri lifa af. Í árslok 2023 voru 10.070 konur á lífi sem fengið höfðu krabbamein en því miður eru krabbamein enn stærsti orsakavaldur ótímabærra dauðsfalla á Íslandi og á hverju ári missum við að meðaltali um 306 konur úr krabbameinum.“

Verum öll meðvituð! Verum öll bleik á Bleika deginum 2024!

 

Ábendingagátt