Lífið er betra í lit!

Hefur útivera og ræktun áhrif á lífsstíl fólks? Af hverju ættum við að rækta í umhverfi okkar? Ingibjörg Valgeirsdóttir frá Saga Story House og Guðríður Helgadóttir garðyrkjufræðingur leiða skemmtilegt fræðslukvöld á vegum heilsubæjarins Hafnarfjarðar og svara þessum spurningum, Ingibjörg opnar fundinn og stýrir og Gurrý heldur erindi um gildi ræktunar út frá ýmsu sjónarhornum, svo sem til skjóls, fegurðar, útiveru, hreyfingar, hollustu, gleði og ánægju, kryddað með misalvarlegum dæmum úr daglega lífinu.

Hefur þú áhuga á ræktun og heilsueflingu?

Heilsubærinn Hafnarfjörður býður til fræðslukvölds í hjarta Hafnarfjarðar í Bæjarbíó sem hugsað er fyrir öll þau sem hafa áhuga á ræktun og heilsueflingu og vilja fræðast um áhrif útiveru og ræktunar. Heilsubærinn hefur undanfarin ár staðið að fyrirlestrum og fræðslu í Bæjarbíó þar sem fjallað er um allt milli himins og jarðar sem tengist heilsueflingu. Nú er komið að því að skoða ræktun á blómum, runnum og matjurtum. Einnig sjálfsrækt.

Aðgangur ókeypis og öll velkomin!

Þetta fræðslukvöld og framtak Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar og talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnu er að ýta undir og efla vellíðan íbúa með fjölbreyttum hætti.

Ábendingagátt