Kiwanisklúbburinn Hraunborg vill efla skáklíf í Hafnarfirði

Kiwanisklúbburinn Hraunborg í Hafnarfirði mun á miðvikudaginn kemur 22. mars standa að skákmóti 5.-7. bekkja úrvalsskáksveita níu grunnskóla Hafnarfjarðar. Einkunnarorð Kiwanishreyfingarinnar hér á landi eru „Börnin fyrst og fremst“ og hefur Hraunborg lagt sig fram um að halda þeim fram í vitnisburði sínum og verkum og einkum látið sig varða hag og heill barna og ungmenna í bænum. Teflt verður með nýjum töflum sem Hraunborg leggur til mótsins og mun að því loknu færa hverjum grunnskóla í bænum tvö töfl að gjöf.

Sex skákmenn tefla í hverri skólasveit

Skákmenn þeirra þriggja skáksveita, sem ná hæstri vinningatölu og liðsstjóri þeirra, verða sæmdir verðlaunapeningum. Sigursveitin mun að auki taka við glæstum Sigurbikar, sem verður farandbikar, til varðveislu í skóla sínum fram að næsta grunnskólamóti fyrrgreindra bekkja í Hafnarfirði. Helgi Ólafsson, einn fremsti og þekktasti stórmeistari Íslands mun stjórna mótinu og vera dómari þess. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði mun leika upphafsleik grunnskólaskákmótsins og hefja það með honum.

Með grunnskólaskákmótinu stefnir stjórn Hraunborgar að því að efla skáklíf í Hafnarfirði og einkum innan grunnskólanna og lítur svo á að með því sé vel fylgt fyrrgreindum einkunnarorðum Kiwanis. Að læra að tefla á unga aldri eftir settum skákreglum hefur mikið uppeldisgildi, eykur félagsþroska, skerpir rökhugsun og sjálfsaga og skilninginn á því að mikilvægt sé að taka ábyrgð á gerðum sínum og virða tímamörk, sem allt varðar veginn fram til farsældar, gagns og gleði.

Ábendingagátt