Þriðjudaginn 3. febrúar kl. 12 bjóðum við ykkur velkomin á fyrstu hádegistónleika ársins í Hafnarborg en þá verður Kristján Jóhannesson gestur Antoníu Hevesi, píanóleikara og listræns stjórnanda tónleikaraðarinnar. Þá munu þau flytja aríur eftir tónskáldin Mozart, Rossini og Händel.

Kristján Jóhannesson hóf söngnám við Söngskóla Sigurðar Demetz árið 2008. Árið 2014 fluttist hann síðan til Vínarborgar til framhaldsnáms við Konservatoríið þar í borg hjá Utu Schwabe. Á námsárunum söng Kristján meðal annars í óperum Mozarts með Sumarakademíu Vínarfílharmóníunnar, í uppfærslum Neue Oper Wien, í I Puritani eftir Bellini í Hofi á Akureyri með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og hlutverk Nautabanans í Carmen eftir Bizet hjá Íslensku óperunni. Árið 2017 hóf hann svo störf við Theater an der Wien og Kammeroper í Vínarborg. Af helstu verkefnum hans þar má nefna Niflungahringinn og Tristan og Ísoldi eftir Wagner, Salome eftir Strauss, Don Carlo eftir Verdi, Faust eftir Gounod og Mærina frá Orleans eftir Tchaikovsky.

Árið 2021 fluttist Kristján til St. Gallen í Sviss, þar sem hann hefur verið fastráðinn. Af verkefnum hans þar má nefna Requiem og Ernani eftir Verdis, Elektru eftir Strauss, Guillaume Tell eftir Rossini, Leðurblökuna eftir Johann Strauss yngri og Töfraflautu Mozarts. Þá hefur hann tekið þátt í tónlistarhátíðinni í Aix-en-Provence síðastliðin ár. Hann hefur einnig sótt masterclass-tíma hjá listamönnum á borð við þau Elly Ameling og Andreas Schmidt, Robert Holl, Thomas Hampson, Angeliku Kirchschlager og Adrian Eröd. Sömuleiðis hefur hann sótt masterclass-tíma í ljóðasöng með píanóleikurum á borð við Helmuth Deutsch, Julius Drake, Wolfram Rieger og Roger Vignoles. Kristján leggur nú stund á nám í guðfræði við Háskóla Íslands.

Antonía Hevesi, píanóleikari, hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg, sem hafa verið fastur liður í dagskrá safnsins síðan 2003. Þar hefur Antonía fengið til liðs með sér marga af fremstu söngvurum landsins en markmiðið með tónleikunum að veita gestum tækifæri til að njóta lifandi tónlistarflutnings í góðu tómi. Þá fara hádegistónleikarnir að jafnaði fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrartímann.

Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund. Húsið opnar kl. 11:30 og tónleikarnir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Aðgangur ókeypis.

Ábendingagátt