Boð í 100 ára afmælisveislu

Andi 1923 verður allsráðandi í Hellisgerði laugardaginn 26. ágúst þegar garðurinn fagnar 100 ára afmæli. Afmælishátíðin er öllum opin og verður dagskrá í anda þeirra hugmynda og gilda sem garðurinn hefur staðið fyrir í 100 ár.

Ávarp, leiðsögn, sögur, ljúfir tónar og dans

Bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Rósa Guðbjartsdóttir, ávarpar gesti og afhjúpar skilti um sögu og flóru garðsins við hjartað í Hellisgerði. Boðið verður upp á leiðsögn fagfólks um garðinn en þar má nefna fræðslu um tilurð Yngsta fiskimannsins við tjörnina, sagðar verða sögur af huldufólki og farið yfir þróun blóma- og skemmtigarðsins. Hinn aldargamli garður fyllist af ljúfum tónum og mun Margrét Arnardóttir leika á harmonikku að þjóðlegum sið. Gaflarakórinn syngur nokkur lög, Lúðrasveit Hafnarfjarðar blæs síðan af krafti þar til Jazzhljómsveitin SE Sextett leikur fyrir dansi með tónum frá 1930. Dansað verður um allan garð og verða hinir fótafimu dansarar Lindy Ravers þar í fararbroddi en öll eru hvött til þess að stíga sporið í garðinum.

Dagskrá:

14:00 – Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri ávarpar gesti

14:10 – Gaflarakórinn

14:25 – Lúðrasveit Hafnarfjarðar

15:00 – Jazzhljómsveitin SE Sextett

Kynnir dagsins: Guðbjörg Oddný Jónasdóttir

 

Leiðsögn um garðinn:

Yngsti fiskimaðurinn við tjörnina kl.15

Sigurður Trausti Traustason, deildarstjóri safneigna og rannsókna hjá Listasafni Reykjavíkur og sérfræðingur í Ásmundi Sveinssyni heldur erindi um Yngsta fiskimanninn á 100 ára afmælis hátíð Hellisgerðis þann 26. ágúst. Hann mun segja frá tilurð verksins og hvernig áhrifa Carls Millers, lærimeistara Ásmundar, gætir í verkum hans. Bæði Ásmundur og Millers, sem er einn virtasti myndhöggvari Svíþjóðar,  lögðu alla tíð áherslu á að listin ætti heima í almannarými þar sem flestir hefðu aðganga að verkunum.

 

Sagan, sjarminn og samfélagið. Gengið frá styttu Bjarna Sívertsen kl.15:30

Jónatan Garðarson, leiðir göngu um Hellisgerði og fer yfir sögu garðsins og samfélagsins sem byggði upp garðinn.

 

Huldufólk í Hellisgerði gengið frá tjörninni kl.16

Silja Gunnarsdóttir leiðir stutta göngu um álfaslóðir og segir sögu álfa, dverga og huldufólks en í Hellisgerði býr eitt mesta þéttbýli huldufólks á Íslandi.

 

Myndlistarsýning í Litla Gallerý opið frá 13-17

Í tilefni af hundrað ára afmæli Hellisgerðis, skrúðgarðs Hafnfirðinga, höldum við systkinin Kristbergur og Oddrún Pétursbörn, myndlistarsýningu í Litla Gallerý, Strandgötu 19 í Hafnarfirði. Við viljum jafnframt minnast föðurömmu okkar, Guðmundínu Oddrúnar Oddsdóttur, en hún bjó í litlu húsi með bæjarlagi inni í garðinum á árunum frá 1950 til 1980. Þá hét húsið, eða réttara sagt bærinn, einfaldlega Reykjavíkurvegur 15b en í dag er það þekkt sem Litla Álfabúðin.

Barnahátíðin „Álfahátíð í Hellisgerði“ verður haldin sunnudaginn 27. ágúst 2023 frá kl. 14-16:30. Dagskrá á sviði hefst um kl. 15 og stendur yfir til c.a. 16:30. Benedikt búálfur sér um að kynna dagskrána. Álfadrottning og álfakóngur verða á svæðinu á meðan á hátíðinni stendur auk þess verður boðið upp á sögustund, tónlistaratriði, sölutjald og fullt af álfum. Góðir gestir eru hvattir til að mæta klædd í álfabúninga en skilja hunda eftir heima.

Aðgangur ókeypis og öll velkomin!

Viðburður á Facebook

Hlökkum til að fagna með ykkur!

Ábendingagátt