Þróunaráætlun Hrauns Vestur og drög að breytingu á Aðalskipulagi 2013-2025

Boðað er til kynningarfundar um þróunaráætlun Hrauns Vestur og drög að tillögu að lýsingu á breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025.

Svæðið fái að þróast og byggjast upp á grunni núverandi byggðar

Fimmtudaginn 23. maí 2024 verður kynningarfundur í Bæjarbíó um þróunaráætlun fyrir Hraun Vestur sem er heildarsýn fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Í þróunaráætluninni eru sett fram leiðarljós og stýrilínur fyrir framtíðaruppbyggingu svæðisins alls og er hún mikilvægt verkfæri inn í frekari skipulagsvinnu þó hún sé ekki bindandi skipulagsáætlun. Uppbygging á svæðinu mun gerast í áföngum og taka tíma. Skipulagsrammi þróunaráætlunarinnar er því sveigjanlegur og tekur mið af aðstæðum á hverjum reit/svæði fyrir sig. Framtíðarsýnin er í meginatriðum að svæðið fái að þróast og byggjast upp á grunni núverandi byggðar, forsendum þróunaráætlunarinnar og að frumkvæði einstakra lóðarhafa og hugmynda þeirra og þannig mun svæðið breytast með tímanum í fjölbreytta og góða byggð.

Fjölbreytt nýting búsetu og atvinnustarfsemi

Samhliða hefur verið unnið að breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 og er þróunaráætlunin samofin þeirri vinnu. Í breytingu á Aðalskipulagi er fyrirhugað að breyta landnotkun á Hraun Vestur svæðinu úr athafnasvæði, verslunar- og þjónustusvæði og íbúðabyggð í miðsvæði. Þannig verður mögulegri framtíðaruppbyggingu á svæðinu breytt í blandaða byggð sem býður m.a. upp á fjölbreytta nýtingu svo sem búsettu og atvinnustarfsemi. Tillaga að lýsingu og breytingu aðalskipulags Hafnarfjarðar 2013-2015 verður auglýst síðar.

Viðburður á Facebooksíðu Hafnarfjarðarbæjar

Fundurinn verður tekinn upp og upptakan gerð aðgengileg á vef bæjarins nokkrum dögum eftir fund.

Öll áhugasöm um uppbyggingu og framtíð þessa svæðis er hvött til að mæta til fundarins

Ábendingagátt