Sunnudaginn 19. janúar kl. 14 bjóðum við ykkur velkomin á listamannsspjall með Arngunni Ýr, þar sem hún mun segja frá verkum sínum á sýningunni Kahalii, sem hefur staðið yfir í safninu síðan í nóvemberbyrjun. Á sýningunni getur að líta ný og nýleg málverk eftir Arngunni, þar sem listakonan beinir sjónum að eigin landnámi á Hawaii, auk þess að leiða hugann að samspili umhverfis, sögu og landnýtingar. Þá vekjum við jafnframt athygli á því að um er að ræða síðasta sýningardag.

Verkin á sýningunni varpa ekki aðeins ljósi á náttúrufegurð svæðisins, heldur einnig þær spurningar sem vakna við röskun á landsvæði sem á sér langa sögu og þar sem náttúruöflin minna reglulega á sig. Þar býr Arngunnur sér nú heimili, ásamt eiginmanni sínum, á fögrum stað þar sem náttúran víkur smátt og smátt fyrir manngerðum byggingum og eru listaverkin þannig samofin marglaga sögu landsins. Fela verkin þannig jafnt í sér persónulegar vangaveltur listakonunnar sem og víðtækari umfjöllun um þróun byggðar og eyðileggingu, sem gefur áhorfendum að sama skapi tækifæri til að íhuga eigin samband við sögu og umhverfi.

Arngunnur Ýr (f. 1962) útskrifaðist með BFA-gráðu í málaralist frá San Francisco Art Institute árið 1986. Hún var síðar gestanemi við Gerrit Rietveld-akademíuna í Amsterdam, Hollandi, 1989 til 1990 en sneri aftur til Kaliforníu og lauk meistaragráðu í málaralist frá Mills-háskólanum í Oakland árið 1992. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, svo sem úr sjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur og árið 2005 hlaut hún styrk frá Pollock-Krasner Foundation. Verk hennar hafa verið sýnd hér á landi, í Evrópu og Bandaríkjunum og eru verk eftir hana ýmist í eigu opinberra safna, stofnana og einkasafnara, bæði hér á landi sem erlendis.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt