Það er komið að því!
Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opnað með hátíðlegri dagskrá á Thorsplani föstudaginn 18. nóvember þegar ljósin verða tendruð á Cuxhaven-jólatrénu. Jólatréið er gjöf frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar í Þýskalandi, og mun það lýsa upp Jólaþorpið í desember.
Dagskrá opnunarhelgar í Jólaþorpinu:
Föstudagur 18. nóvember
– Kl. 17:00 Jólaþorpið opnar
– Kl. 18:00 Lúðrasveit Hafnarfjarðar
– Kl. 18:20 Karlakórinn Þrestir
– Kl. 18:30 Staðgengill sendiherra Þýskalands, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og formaður vinabæjarfélagsins Hafnarfjörður-Cuxhaven tendra ljósin á Cuxhaven jólatrénu
– Kl. 18:40 Klara Elias flytur jólalagið Desember og Eyjanótt í jólabúningi
Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opið alla föstudaga frá kl. 17-21, laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-18 til jóla og til kl. 22 á Þorláksmessu.
Njóttu alls þess sem aðventan hefur upp á að bjóða í Jólaþorpinu í Hafnarfirði!
Hafnarfjarðarbær býður jólin velkomin með sínum árlega jólamarkaði fullum af gleði, gómsætum bitum og skemmtilegum jólavarningi. Jólaþorpið á Thorsplani í Hafnarfirði verður opið allar helgar á aðventunni en þar iðar allt af lífi og fjöri fyrir jólin. Jólabærinn Hafnarfjörður hefur sjaldan verið eins jólalegur og Hafnfirðingar samstíga í því að setja jólin upp snemma.
Fagurlega skreyttu hafnfirsku jólahúsin eru fyrir löngu orðin landsþekkt fyrir ýmisskonar spennandi gjafavöru, sælkerakrásir, handverk og hönnun. Þar er tilvalið að leita að hinni fullkomnu jólagjöf á meðan þú nýtur gómsætra veitinga sem ylja að innan. Jólasveinarnir koma í heimsókn á laugardögum og Grýla verður á vappi um bæinn á sunnudögum. Strandgata breytist í göngugötu á meðan Jólaþorpið er opið.
Komdu heim í Hafnarfjörð á aðventunni!
Sjáumst í Jólaþorpinu!
Ábendingagátt