Laugardaginn 27. maí kl. 13 mun Kristín Helga Ríkharðsdóttir, myndlistarmaður og einn þátttakenda í sýningunni Ósýndarheimum, taka á móti gestum á safninu, segja frá eigin listsköpun og fjalla um tengsl verka sinna við sýningarhugmyndina og önnur verk á sýningunni. Þá er jafnframt að ganga í garð síðasta sýningarhelgi sýningarinnar en hún stendur til og með mánudeginum 29. maí næstkomandi.

Á s‎ýningunni er að finna verk eftir sex íslenska og erlenda samtímalistamenn sem beina sjónum sínum að stafrænni list, ljósmyndun, hreyfimyndum, raunsæi og ofurveruleika. Í verkum þeirra má greina hugmyndir um aftengingu, kvíða og þ‏‏á gráglettni sem einkennir kynslóðina sem nú lifir og hrærist í umhverfi nýmiðlunar. Með því að beita fyrir sig stafrænum tjáningarmöguleikum draga listamennirnir meðal annars fram satíruna sem felst í streituvaldandi lífsmynstri 21. aldarinnar.

Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni, auk Kristínar Helgu, eru Meriem Bennani, María Guðjohnsen, Bita Razavi, Helena Margrét Jónsdóttir og Inari Sandell.

Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.

Aðgangur ókeypis – verið öll velkomin.

Ábendingagátt