Föstudaginn 2. febrúar kl. 18-22 verður haldið upp á Safnanótt í Hafnarborg og því munu dyr safnsins verða opnar fram á kvöld, auk þess sem boðið verður upp á ýmsa viðburði, svo sem tónleika, hugleiðslu og leiðsögn um yfirstandandi sýningar. Hér fyrir neðan má finna nánari upplýsingar um dagskrá Hafnarborgar á Safnanótt.

18:00
Síðdegistónar í Hafnarborg
Tríó Halla Guðmunds, kontrabassaleikara, mun koma fram á fyrstu tónleikum Síðdegistóna í Hafnarborg árið 2024 Tríó Halla sem hann kallar „Limp Kid Dances Tango“ skipa auk Haraldar, eða Halla Guðmunds, þeir Matthías Hemstock á trommur og slagverk og Andrés Þór á gítar. Á efniskránni verður ný tónlist eftir Harald Ægi sem gaf nýlega út plötuna Tango for One. Tónlistin er latínskotin en platan hefur hlotið mjög góðar viðtökur frá útgáfu.

19:30
Nidra-hugleiðsla
Í Sverrissal Hafnarborgar, þar sem nú má sjá verk eftir Þór Sigurþórsson, verður boðið upp á leidda hugleiðslu með Önnu Jóhannesdóttur, jógakennara, þar sem hugað verður að jarðtengingu, tíma og innri ró. Á sýningunni vinnur listamaðurinn með fundið efni eins og tjaldhæla, klukkuvísa og dagblöð sem hafa sterka tengingu við stað og stund. Viðburðurinn hentar gestum á öllum aldri.

20:30
Leiðsögn um yfirstandandi sýningar
Boðið verður upp á leiðsögn um yfirstandandi sýningar safnsins ásamt Aldísi Arnardóttur, forstöðumanni Hafnarborgar. Þá mun hún leiða gesti um sýningarnar Flæðarmál, þar sem litið er yfir feril Jónínu Guðnadóttur, og Vísa, þar sem sýnd eru ný verk eftir Þór Sigurþórsson.

Á Safnanótt býðst gestum Vetrarhátíðar að heimsækja um fimmtíu söfn og skoða fjölbreyttar sýningar á höfuðborgarsvæðinu, jafnframt því sem söfnin bjóða upp á lifandi og skemmtilega dagskrá. Þá taka menningarstofnanir Hafnarfjarðar, Bókasafnið, Byggðasafnið og Hafnarborg, þátt eins og vanalega. Frítt er inn á öll söfnin og alla viðburði í tilefni kvöldsins.

Ábendingagátt