Umvefjum tréð fallegum minningum og kærleik

Tendrað verður á Sorgartrénu í Hellisgerði þann 26. nóvember. Hist verður í Lífsgæðasetrinu St. Jó að Suðurgötu 41 í Hafnarfirði, kl. 17, þar sem stjórnarformaður Sorgarmiðstöðvar fer með nokkur orð um jólin og sorgina. Síðan verður gengið saman í Hellisgerði þar sem Kvennakór Kópavogs tekur nokkur lög áður en kveikt verður á Sorgartrénu. Sorgartréð er í sparifötunum yfir jólin en síðan er það í misjöfnum klæðum allt eftir árstíðum. Sorgarmiðstöðin vill hvetja syrgjendur til að setjast undir tréð, hvenær sem er, og þannig umvefja tréð fallegum minningum og kærleik.

Um Sorgartréð í Hellisgerði

Jólaskreytt Hellisgerði er orðið fastur liður í jólahaldi margra og umvefur þessi fallegi garður okkur þegar við göngum þar inn. Það var því auðvelt að ákveða hvar Sorgartréð yrði staðsett. Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð og minnst þeirra sem fallin eru frá á þeim ljúfsáru tímum sem aðventan og jólin eru oft fyrir þau sem syrgja. Sorgartrénu er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs. Með tilkomu trésins er hægt að bjóða upp á hugljúfan og fallegan stað í hjarta Hafnarfjarðar sem hefur að geyma birtu og hlýju til syrgjenda. Stundum komumst við ekki að leiði ástina vegna fjarlægðar, einnig er gott að hafa fleiri staði í okkar nærumhverfi þar sem að við getum átt stund með sjálfum okkur og minningum um þann látna. Hellisgerði er töfrum líkast og sérstaklega á þessum tíma árs, garðurinn er vel til þess fallinn að halda utan um allar minningarnar sem sveima um huga okkar þegar við göngum þar um. Það mætti segja að Sorgartréð þrífist á minningunum og dafni með þeim með tíð og tíma. Velkomið er að “tagga” @sorgarmidstod á myndir hjá Sorgartrénu, og jafnvel deilt nafni ástvinar, í aðdraganda jólanna svo við getum eflt samstöðu með þeim sem sakna ástvina sinna um jólin.

Allt um Sorgarmiðstöð í Lífsgæðasetri St. Jó 

Ábendingagátt