Jólaþorpið í Hafnarfirði verður opið frá kl. 13-22 á Þorláksmessu 23. desember 2022.

Fagurlega skreyttu hafnfirsku jólahúsin eru fyrir löngu orðin landsþekkt fyrir ýmiskonar spennandi gjafavöru, sælkerakrásir , handverk og hönnun. Þar er tilvalið að leita að síðustu jólagjöfinni á meðan þú nýtur gómsætra veitinga sem ylja að innan.

Grýla og jólasveinarnir verða á vappi um bæinn og kynna hátíðardagskrá sem stendur yfir frá kl. 15 þegar Listdansskóli Hafnarfjarðar sýnir jóladansa í Jólaþorpinu. Sigga Beinteins og Grétar Örvars stýra svo loksins aftur jólaballi í Jólaþorpinu frá kl. 17-18.

Á Þorláksmessukvöld verður safnast saman í Hellisgerði og lagt af stað í Jólagöngu kl. 19:30 og gengið sem leið liggur niður Reykjavíkurveg í Jólaþorpið á Thorsplani. Rebekka Blöndal, Davíð Sigurgeirs og Sigmar Þór Matthíasson taka vel á móti göngufólki í Hellisgerði og leika jóladjass á sviðinu frá kl. 19 og Björgunarsveit Hafnarfjarðar selur kyndla til stuðnings öflugu björgunarstarfi sveitarinnar. Þá verður Margrét Arnardóttir á ferð um bæinn með nikkuna.

Í Jólaþorpinu taka Jólabjöllurnar á móti göngufólki og leiða samsöng og Sigurður Guðmundsson slær botninn í dagskrá Jólaþorpsins þetta árið með nokkrum hátíðlegum jólalögum kl. 20.

Hjartasvellið fyrir framan Bæjarbíó verður opið frá kl. 12-22 á Þorláksmessu og hægt að panta skautaferð og skauta á hjartasvellid.is

Hátíðardagskrá á Þorláksmessu:

  • 15:00 Listdansskóli Hafnarfjarðar sýnir jóladansa í Jólaþorpinu
  • 17:00 Jólaball með Siggu Beinteins og Grétari í Jólaþorpinu
  • 19:00 Jóladjass í Hellisgerði – Rebekka Blöndal, Davíð Sigurgeirs og Sigmar Þór Matthíasson
  • 19:30 Jólaganga frá Hellisgerði í Jólaþorpið
  • 19:40 Jólabjöllurnar í Jólaþorpinu
  • 20:00 Sigurður Guðmundsson
  • 20:30 Menningar- og ferðamálanefnd afhendir viðurkenningar fyrir bestu jólaskreytingarnar

Njóttu alls þess sem aðventan hefur upp á að bjóða í jólabænum Hafnarfirði!

Í miðbæ Hafnarfjarðar er allt til alls þegar kemur að verslun og þjónustu. Fjölbreyttar og fallegar verslanir með áherslu á hönnun eru allt um bæinn, sem og veitingastaðir og kaffihús af bestu gerð þar sem njóta má á staðnum eða grípa dýrindis bakkelsi og rétti til að taka með sér heim. Skelltu þér í alvöru kaupstaðarferð, skildu jólastressið eftir heima og kláraðu innkaupin með heimsókn í huggulegasta heimabæ höfuðborgarsvæðisins.

Strandgata breytist á göngugötu frá Lækjargötu að Linnetsstíg á meðan Jólaþorpið er opið og lokað verður fyrir bílaumferð niður Reykjavíkurveg í stutta stund kl. 19:30 þegar jólagangan gengur hjá.

 

Komdu heim í Hafnarfjörð á aðventunni!
Sjáumst í Jólaþorpinu!

Ábendingagátt