Léttfeti, Göngugarpur og Þrautakóngur

Uppskeruhátíð Ratleiks Hafnarfjarðar 2023 verður haldin í Hafnarborg fimmtudaginn 28. september kl. 18:30. Á hátíðinni verða útnefndir Léttfeti, Göngugarpur og Þrautakóngur Ratleiks Hafnarfjarðar 2023 og tveir aðrir í hverjum flokki fá verðlaun. Þá verða fjölmargir heppnir þátttakendur, sem mæta á uppskeruhátíðina, dregnir út og fá líka vinninga! Hátíðin verður í aðalsal Hafnarborgar og boðið verður upp á veitingar.

Góð fyrirtæki gefa vinningana: Fjallakofinn, Sundlaugar Hafnarfjarðar, Fjarðarkaup, Altis, Von mathús, Músik og sport, Ban Kúnn, Burger, Gormur, Rif, Ban Kúnn, Krydd, Tilveran, Píluklúbburinn, M Design, Snjóís og Gróðrarstöðin Þöll. Aðalstyrktaraðili Rio Tinto á Íslandi en Hönnunarhúsið ehf. gefur leikinn út í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ og Fjarðarfréttir.

Um Ratleik Hafnarfjarðar

Ratleikur Hafnarfjarðar hófst í 26. sinn í júní 2023. Markmið þessa vinsæla ratleiks hefur ávallt verið að leiða þátttakendur vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar til að njóta útivistar og náttúru. Lögð eru 27 merki vítt og breitt um uppland Hafnarfjarðar og jafnvel inn í nágrannasveitarfélögin. Þátttakendur fá frítt vandað ratleikskort og leita að 27 ratleiksmerkjum. Sum merkjanna eru stutt frá bænum og önnur aðeins lengra. Guðni Gíslason leggur leikinn en það er Hönnunarhúsið ehf. sem gefur út leikinn í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Ómar Smári Ármannsson hefur um árabil aðstoðað við val á ratleiksstöðum og ritað fróðleiksmola en hann er manna kunnugastur á Reykjanesskaganum og heldur úti fróðleikssíðunni ferlir.is.

Nánar um Ratleik Hafnarfjarðar 

Ábendingagátt