Útgáfu bókarinnar LÆK verður fagnað í stærsta útgáfupartýi landsins  á Thorsplani miðvikudaginn 24. apríl. Partýið verður í tvennu lagi. Miðstigið mætir kl. 9 og unglingastigið kl. 10.15

Dagskrá útgáfuhófs:

  • Hátíðin sett
  • Spjallað um tilurð bókarinnar,  hvatning og hrós til nemenda:  Bókahöfundarnir Bergrún Íris og Gunnar Helgason
  • Tónlistaratriði: VÆB
  • Bókakassar afhentir skólastjórnendum og formönnum nemendaráða skólanna
  • Nemendur fara aftur til sinna skóla eftir að athöfn er lokið. Bækur verða afhentar nemendum í skólunum

LÆK er samstarfsverkefni milli Mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar og rithöfundanna Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur og Gunnars Helgasonar. Bókin samanstendur af 18 smásögum byggðar á tillögum frá hátt í 2.600 nemendum úr grunnskólum Hafnarfjarðar.

Bókinni er ætlað að efla lesskilning, orðaforða, læsi og lestraráhuga nemenda á mið- og unglingastigi í grunnskólum Hafnarfjarðar, á öllum getustigum. Smásögurnar tengjast hverjum skóla og voru tvær sögur samdar í hverjum þeirra. Við útgáfu á LÆK var áherslan sett á vandaða uppsetningu texta, góða leturgerð og leturstærð sem hentar nemendum í lestrarvanda. Bókin kemur samtímis út sem hljóðbók hjá Hljóðbókasafninu. Auk smásagnanna er stutt umfjöllun í bókinni ætluð foreldrum og kennurum um hvernig dýpka má lesskilning nemenda.

  • Kl. 14:00 – 16:00:  Bókasafn Hafnarfjarðar – Bergrún Íris og Gunni Helga taka á móti nemendum á bókasafninu og árita bækurnar fyrir þá sem vilja.
Ábendingagátt