Skemmtileg og hvetjandi stund fyrir öll áhugasöm

  • Hvar: Bæjarbíó
  • Hvenær: Þriðjudaginn 12. nóvember kl. 17:30
  • Fyrir hverja: Ungt fólk, fjölskyldur þeirra og öll áhugasöm

Heilsubærinn Hafnarfjörður býður til hressandi og hvetjandi stundar í hjarta Hafnarfjarðar um jákvæð samskipti og hvernig við öll – hvert og eitt – getum með góðum samskiptum náð því besta út úr fólkinu í kringum okkur – fjölskyldu, vinum og vinnufélögum. Hvað er betra en jákvæð samskipti og innihaldsríkar samverustundir í aðdraganda jóla? Minna er meira.

Þorpsandinn – jákvæð samskipti eru val

Jákvæðni er val og ákvörðun og til þess fallin að hafa smitandi áhrif á allt og alla. Heilsubærinn hefur fengið Pálmar Ragnarsson, fyrirlesara og körfuboltaþjálfara, til liðs við sig til að ræða við öll áhugasöm um mátt jákvæðninnar og hvernig við öll getum haft áhrif á menninguna og andann í þorpinu okkar. Pálmar hefur slegið í gegn með fyrirlestrum sínum og getið af sér gott orð fyrir að vera líflegur og kraftmikill fyrirlesari. Pálmar leggur sjálfur mikla áherslu á að hrósa fólki og vill með framkomu sinni og fyrirlestrum kveikja neista og smita áhuga.

Við höfum öll áhrif!

Markmiðið er að þátttakendur gangi út með hagnýt ráð og ný tól í farteskinu um mikilvægi góðra og heilbrigðra samskipta og áhrif þeirra á vellíðan og sjálfsöryggi hjá hverjum og einum. Við höfum öll áhrif á fólkið í kringum okkur – jákvæð eða neikvæð. Virkjum og veljum jákvæðu samskiptin.

Saman erum við þorpið – vertu með!

————————————–

Þessi fundur er hluti af fundaröð Hafnarfjarðarbæjar og heilsubæjarins Hafnarfjarðar um málefni barna og ungmenna, líðan þeirra og öryggi. Fundaröðin er jafnframt hluti af vegferð Hafnarfjarðarbæjar að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi.

 

 

 

Ábendingagátt