Öðruvísi og einstök upplifun á nýjum stað við hafið

Heilsubærinn Hafnarfjörður í samstarfi við Svefn Yoga í Lífsgæðasetri St. Jó bjóða áhugasömum í Yoga Nidra – endurnærandi djúpslökun – miðvikudaginn 13. desember kl. 19:30 í nýjum sal Ægis 200 að Strandgötu 90. Aðgangur er ókeypis og bæði aðdáendur og þau sem aldrei hafa prófað Yoga Nidra sérstaklega hvött til að skrá sig, mæta og njóta.  Nóg er að melda mætingu í viðburðinum sjálfum eða hér

Yoga Nidra er leidd djúpslökun

Rannsóknir sýna að 45 mínútur í Yoga Nidra jafngildir 4 klukkustundum af svefni auk þess sem rannsóknir, bæði á Íslandi og erlendis, sýna gildi Nidra fyrir þá sem eru að takast á við streitu, álag, svefnerfiðleika, kvíða eða þunglyndi. Iðkendur liggja á dýnu í algerri slökun og eru leiddir áfram skref fyrir skref af Yoga Nidra kennara. Líkaminn sefur en undirmeðvitundin vakir. Tíminn er um 50 mínútur.

Mikilvægt að koma vel klædd og með viðeigandi búnað

Mikilvægt er að koma vel klædd og í þægilegum fötum til þessarar endurnærandi stundar og taka með sér teppi, dýnu, púða undir höfuð og eitthvað til að leggja yfir augun. Þessi nærandi stund fer fram í Ægi 220, nýjum og hráum samkomusal sem búið er að opna í 70 ára gömlu skreiðahúsi á hafnarsvæðinu. Það stefnir því allt í öðruvísi og einstaka upplifun við hafið.

Sigrún Jónsdóttir og Ólafur Sigvaldason, Yoga Nidra kennarar hjá Svefn Yoga, leiða tímann. Þau hafa lokið Yoga Nidra kennararéttindum í grunn- og framhaldsnámi hjá Kamini Desai, I am Yoga Nidra, kennaranámi í Pranyama Yoga öndun hjá Matsyendra og fyrsta stigi í tónheilun með kristalskálum og gongi.

Liður í því að efla vellíðan íbúa

Þetta framtak Heilsubæjarins Hafnarfjarðar er liður í heilsueflingu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar og talar í takt við þá heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði 2016. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnunnar er að finna leiðir og lausir til að efla vellíðan íbúa. Hér í samstarfi við Svefn Yoga í Lífsgæðasetri St. Jó.

Allt um Lífsgæðasetur St. Jó 

Ábendingagátt