Víðistaðaskóli fagnar 50 ára afmæli!

Fréttir

Víðistaðaskóli fagnar í dag 50 ára afmæli skólans en skólinn var stofnaður þann 16. september 1970 sem var fyrsti skóladagur nemenda í nýjum heimaskóla fyrir nemendur í norðurbæ og vesturbæ Hafnarfjarðar. Víðistaðaskóli var þá þriðji grunnskóli Hafnarfjarðar. 

Víðistaðaskóli fagnar í dag 50 ára afmæli skólans en skólinn var stofnaður þann 16. september 1970 sem var fyrsti skóladagur nemenda í nýjum heimaskóla fyrir nemendur í norðurbæ og vesturbæ Hafnarfjarðar. Víðistaðaskóli var þá þriðji grunnskóli Hafnarfjarðar og var fyrsta foreldrafélag við grunnskóla í Hafnarfirði stofnað við skólann. Undir venjulegum kringumstæðum hefði afmælishátíðin verið opin foreldrum, vinum og velunnurum skólans en í ljósi takmarkana og tilmæla yfirvalda vegna Covid19 þá sjá nemendur og starfsfólk um að fagna á stórafmælinu með skemmtilegri dagskrá.

Ábyrgð, virðing og vinátta eru leiðarljós skólans

Víðistaðaskóli er heildstæður grunnskóli með nemendur í 1. – 10. bekk. Víðistaðaskóli hefur lagt sérstaka áherslu á að efla heilsu og líðan starfsfólks og nemenda undir merkjum heilsueflandi skóla ásamt því að vinna að öflugri umhverfis vernd og mennt og því til merkis þá fær Víðistaðaskóli á 50 ára afmælisdegi sínum Grænfánann afhentan fimmta sinn. List-og verkgreinum hefur alltaf verið haldið á lofti í skólanum og áhersla lögð á nemendalýðræði og fjölbreytileika.

Skólinn hefur vaxið og dafnað líkt og nemendur skólans

Í kringum 1980 var Víðistaðaskóli fjölmennasti skóli á Íslandi með 1232 nemendur þegar mest var og var skólinn tví- til þrísetinn. Á þeim rúmlega 45 árum sem skólinn hefur starfað hefur húsnæðið tekið miklum breytingum. Hann var byggður í þremur áföngum og haustið 2005 var nýjasti hluti skólans tekinn í notkun. Við skólann hafa starfað fjórir skólastjórar. Fyrsti skólastjórinn var Hörður Zophaníasson sem var starfandi skólastjóri í 22 ár. Við starfinu tók Eggert Leví og starfaði í tæp tvö ár en þá tók Sigurður Björgvinsson við skólastjórastarfinu og sinnti því í 19 ár. Hrönn Bergþórsdóttir er núverandi skólastjóri Víðistaðaskóla og hefur starfað frá árinu 2013. Fjölmargir hafnfirskir nemendur eiga góðar minningar frá skólagöngu sinni í skólanum. Skólinn hefur vaxið og dafnað líkt og nemendurnir og bera viðbyggingar skólans þess augljós merki í takt við aukinn fjölda íbúa að ógleymdum þeim 10 árum sem skólinn sameinaðist Engidalsskóli og Víðistaðaskóli frá 2010-2020.

Sigurður Björgvinsson, fyrrum skólastjóri Víðistaðaskóla, og Hrönn Bergþórsdóttir, núverandi skólastjóri

Sigurður Björgvinsson, fyrrum skólastjóri Víðistaðaskóla, og Hrönn Bergþórsdóttir, núverandi skólastjóri

Skólastarf sem einkennist af starfsgleði og sköpun

Við skólann starfa rúmlega 120 starfsmenn. Skólastarf Víðistaðaskóla einkennist af starfsgleði og sköpun hvort heldur er í skólastofunni, frístundaheimilinu eða félagsmiðstöðinni. Verkefni eins og árleg söngleikjasýning 10. bekkinga í Víðistaðaskóla, sem hefur getið sér góðan róm, skólaþing nemenda unglingadeildar þar sem áhersla á lýðræði nemenda er gerð skil og ekki síst verkefnið Veröld sem sérstaklega miðað að tvítyngdum nemendum eru aðeins brot af því frjóa skólastarfi sem á sér stað í skólanum. Skólinn er staðsettur í einstöku umhverfi, umlukinn hrauni og fjölbreyttri náttúru sem bærinn okkar er þekktur fyrir. Svæðið hentar því einstaklega vel til útivistar og eflingu umhverfisvitundar og því engin furða að skólinn sé á grænni grein.

Hamingjuóskir með hálfrar aldar afmæli Víðistaðaskóla Hafnfirðingar, starfsfólk og nemendur í fortíð, nútíð og framtíð! 

Ábendingagátt