Víðó vissi svörin og vann Veistu svarið

Fréttir

Víðistaðaskóli vissi svörin og sigraði í spurningakeppni félagsmiðstöðva grunnskólanna Veistu svarið. Hátt var fagnað og bikar lyft eftir frækinn sigur félagsmiðstöðvarinnar Hraunsins.

Frábær kvöldstund og sigur Hraunsins

Víðistaðaskóli vissi svörin og sigraði í spurningakeppni félagsmiðstöðva grunnskólanna Veistu svarið.

Síðustu vikur hefur spurningakeppnin staðið yfir. Átta lið tóku þátt og komust fjögur þeirra undanúrslit. Þar unnu félagsmiðstöðvar Víðistaðaskóla og Áslandsskóla sér sæti í úrslitum og var úrslitaviðureignin haldin í þéttsetnu Bæjarbíói í gærkvöldi.

Hraunið, félagsmiðstöð Víðistaðaskóla, keppti við Ásinn úr Áslandsskóla og sigraði með 30 stigum gegn 18.

Höfundurinn og spyrillinn Árni Stefán Guðjónsson spyr síðustu spurningarinnar.

Hraunið hélt farandbikarnum

Nína Svavarsdóttir, Ragnar Halldór Bogason og Úlfar Kristmundsson skipuðu sigurlið Hraunsins. Þau fögnuðu vel að leikslokum og lyftu bikarnum við mikinn fögnuð stuðningsmanna. Þjálfarar þeirra voru Birkir Már Viðarsson og Kristmundur Guðmundsson.

Freyja Bjarnveig Ívarsdóttir, Regin Kamban Gunnarsson og Haraldur Hrafn Þórðarson skipuðu lið Ásins og urðu í 2. sæti allra félagsmiðstöðva Hafnarfjarðar. Þjálfarar þeirra voru Óskar Karl Ómarsson  og Þorsteinn Ómar Ágústsson. Þeir tveir kepptu í Veistu svarið 2022 og unnu það árið. Þeir síðan hafa keppt fyrir lið Flensborg í Gettu betur.

Höfundur og spyrill var Árni Stefán Guðjónsson og stýrði hann keppninni. Keppt var í hraðaspurningum í 90 sekúndur, vísbendingaspurningum, bjölluspurningum, hljóðdæmi og þríþraut.

Lið Víðistaðaskóla hélt farandbikarnum en þau vissu einnig svarið 2023. Keppendurnir fengu bókagjöf, pizzaveislu og rós.

Unga fólkið stóð sig allt með prýði. Virkilega vel gert. Til hamingju Víðistaðaskóli með sigurinn. Til hamingju Áslandsskóli með 2. sætið. Þið rokkið.

Ábendingagátt