Viðurkenning Jafnvægisvogar fjórða árið í röð

Fréttir

Hafnarfjarðarbær hlaut í liðinni viku viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar – Hreyfiafls FKA. Bærinn hefur nú fengið viðurkenninguna fórum sinnum í röð.

Bærinn fær viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Hafnarfjörður er meðal sextán sveitarfélaga sem hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiafls FKA, í ár. Þetta er fjórða árið í röð sem Hafnarfjörður fær viðurkenninguna.

„Við í Hafnarfirði trúum því að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér, það er meðvituð ákvörðun sem krefst ábyrgðar og samstöðu. Við öll sem störfum hjá Hafnarfjarðarbæ höfum lagt okkar að mörkum. Með þannig samstöðu sjáum við árangur, árangur sem við getum verið stolt af,“ segir Valdimar Víðisson, bæjarstjóri.

FKA – Félags kvenna í atvinnulífinu hélt í liðinni viku árlegu viðurkenningarathöfn sína. Sú fyrsta var haldin árið 2019. Alls fengu 128 viðurkenningu í ár. Allir þeirra hafa náð markmiði verkefnisins um jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn eða efsta lagi stjórnunar.

Ásta Dís Óladóttir, prófessor við Háskóla Íslands og formaður Jafnvægisvogarinnar, hrósaði stjórnendum fyrir eftirtektarverðan árangur. Einnig flutti Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar hjá Creditinfo, erindið „Er þetta ekki komið?“ og dómsmálaráðherra, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, hélt hvatningarávarp.

Dómsmálaráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá standa með FKA að þessu hreyfiaflsverkefni.

Markmiðið er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á Íslandi; hlutföllin verði að minnsta kosti 40/60 í framkvæmdastjórn/efsta lagi stjórnunar.

Jafnvægisvogin veitti viðurkenningar til 90 fyrirtækja, 22 opinberra aðila og 16 sveitarfélaga úr hópi þeirra 253 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu.

Til hamingju viðurkenningarhafar 2025! Við erum stolt af því að vera í ykkar hópi.

Ábendingagátt