Viðurkenningar fyrir bestu jólaskreytingarnar

Fréttir Jólabærinn

Sunnudaginn 15. desember voru veittar viðurkenningar á Thorsplani fyrir best skreyttu húsin í Hafnarfirði.

Viðurkenningar veittar – þessi hlutskörpust í ár  

Veittar voru viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin og fallegar götumyndir í Hafnarfirði í aðdraganda jóla 2024.

Hafnfirðingar og aðrir áhugasamir voru í upphafi desembermánaðar hvattir til að setja upp stóru jólagleraugun og senda ábendingu um þau hús, fyrirtæki og götur í Hafnarfirði sem þykja bera af í jólaskreytingum þetta árið. Menningar- og ferðamálanefnd tilkynnti valið en íbúar veittu viðurkenningunni móttökur á Thorsplani, sunnudaginn 15. desember.

Öll fengu fallega jólaskreytingu frá blómabúðinni Burkna.

 

Kirkjugarðar Hafnarfjarðar

Kirkjugarðar Hafnarfjarðar fengu sérstaka viðurkenningu fyrir að skapa hlýlegt og hátíðlegt andrúmsloft á aðventunni. Þjónusta þeirra, sem gerir aðstandendum kleift að lýsa upp leiðir látinna ástvina, hefur verið í boði frá árinu 1956 og er einstök á landsvísu.

Ljósin í kirkjugarðinum lýsa ekki aðeins upp garðinn heldur gleðja og yljar hjörtum allra sem aka um bæinn. Sama fjölskyldan hefur sinnt þessari þjónustu í áratugi og skapar hún dýrmæta arfleifð og einstaka jólafegurð.

Sævangur 15

Litríkar seríur prýða þetta hús og gleðja þá sem keyra eftir Hjallabraut. Á hverju ári bæta eigendur við ljósin, sem sýnir mikla alúð og ástríðu fyrir að skapa fallegt jólaskraut.

Norðurvangur 27, 29, 31, 40 og Heiðvangur 28

Þessi fimm hús í Norðurbæ hlutu viðurkenningu fyrir glæsilega og samræmda götumynd. Stílhrein jólaljós prýða hverja eign og skapa einstaka heildarmynd sem gleður augað og vekur aðdáun vegfarenda. Þetta er góð fyrirmynd um samvinnu nágranna og samheldni í samfélaginu.

Breiðvangur 15-37

Íbúar Breiðvangs hafa sýnt frábæra samstöðu með fallegum og samræmdum jólaskreytingum þar sem blá, græn og gul ljós mynda einstaka stemningu. Gatan er sannkölluð jólaperla þar sem allir leggja sitt af mörkum til að skapa notalegt og fagnandi andrúmsloft. Breiðvangur er glæsileg fyrirmynd um hvað nágrannasamfélag getur áorkað þegar allir taka þátt.

Hrauntunga 1

Stílhrein og falleg jólaljós prýða þetta hús á endanum á Hraunbrún og Hrauntungu. Á hverju ári bætast við ný ljós, sem gerir umhverfið hlýlegt og hátíðlegt.

Fífuvellir 16

Húsið er prýtt huggulegum jólaskreytingum í bláum, grænum og gulum litum. Litlir jólasveinar fylla garðinn og skapa ævintýralegt umhverfi sem gleður bæði börn og fullorðna.

Furuvellir 19

Þetta hús er sannkallað jólalegt ævintýri og líklega mest skreytta húsið í Hafnarfirði. Garðurinn er prýddur glæsilegum ljósum og skreytingum – meira að segja bíllinn í innkeyrslunni er jólaskreyttur, þar sem Jólasveinninn situr við stýrið!

Glitvellir 33

Fallegt og smekklegt hús sem er unun að horfa á. Jólaljósin setja alla í hátíðarskap og skapa notalega stemningu.

 

Fjóluhvammur 6

Þar sameinast sköpunargleði, litagleði og leikur í fallegum jólaskreytingum sem koma manni í gott jólaskap og gleðja vegfarendur.

Við þökkum öllum þeim sem tóku þátt í jólaskreytingakeppninni 2024 fyrir þeirra framlag til að fegra Hafnarfjörð á aðventunni. Samfélagsleg þátttaka ykkar skapar einstaka jólastemningu sem við öll njótum.

Ábendingagátt