Viðurkenningar fyrir vandaðan upplestur og framsögn

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði fór fram í Hafnarborg í gær þar sem fulltrúar úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar stigu á svið með vandaðan upplestur og framsögn. Hópurinn í heild hlaut viðurkenningu fyrir frammistöðu sína auk þess sem þeir þrír hlutskörpustu voru verðlaunaðir sérstaklega.

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði fór fram í Hafnarborg í gær þar sem fulltrúar úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar stigu á svið með vandaðan upplestur og framsögn. Hópurinn í heild hlaut viðurkenningu fyrir frammistöðu sína auk þess sem þeir þrír hlutskörpustu voru verðlaunaðir sérstaklega. Stóra upplestrarkeppnin er orðinn mikilvægur hluti af skóla- og foreldrasamfélagi um land allt en hátíðin á uppruna sinn í Hafnarfirði og er hér um að ræða eitt langlífasta lestrarverkefni á Íslandi sem sprottið er upp af frumkvæði áhugafólks um eflingu íslenskrar tungu .

Fjórtán nemendur úr 7. bekkjum grunnskóla Hafnarfjarðar tóku þátt í Stóru upplestrarkeppninni í Hafnarfirði í ár og lásu þeir texta Andra Snæs Magnasonar úr Bláa hnettinum, ljóð Steinunnar Sigurðardóttur og ljóð að eigin vali en þau Andri og Steinunn voru skáld keppninnar í ár. Andri Snær flutti einnig ávarp á hátíðinni í Hafnarborg. Nemendurnir fengu að gjöf bækur, sundkort, Átthagaspilið um Hafnarfjörð og gjafabréf á leiksýningu Gaflaraleikhússins. Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti nemendum öllum viðurkenningar fyrir frækna frammistöðu. Þrír nemendur þóttu hlutskarpastir í upplestrinum að mati dómnefndar, þau Erla Rúrí Sigurjónsdóttir frá Áslandsskóla, Dagur Logi Sigurðsson frá Hvaleyrarskóla og Sveinbjörg Júlía Kjartansdóttir frá Hraunvallaskóla. Erla Rúrí stóð uppi sem sigurvegari, Dagur Logi lenti í öðru sæti og Sveinbjörg Júlía Kjartansdóttir í því þriðja.  Dómnefnd í ár skipuðu þau Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Ásta Margrét Eiríksdóttir, Heiðrún Kristjánsdóttir, Óskar Guðjónsson og Símon Jón Jóhannsson.

Hátíð sköpunar og skemmtunar

Veittar voru viðurkenningar fyrir boðskort hátíðar og smásögur í smásagnasamkeppni 8.-10. bekkinga í grunnskólum Hafnarfjarðar sem sett var af stað á Degi íslenskrar tungu. Brynja Kristín Bertelsdóttir í 6.SJ í Setbergsskóla fékk verðlaun fyrir teikningu sína á boðskortið. Fjórar smásögur voru verðlaunaðar og var það Frú Eliza Reid forsetafrú sem sá um afhendingu þeirra. Í þriðja sæti lentu tvær smásögur. Dagur í lífi hans eftir Nóa Barkarson í Víðistaðaskóla og Þetta er sagan hans Nizar eftir Særúnu Björk Jónasdóttur í Hraunvallaskóla. Í öðru sæti lenti sagan Gítarleikararnir tveir eftir Val Áka Svansson í Víðistaðaskóla og í fyrsta sæti sagan Jói eftir Kristófer Baldur Sverrisson í Víðistaðaskóla. Nemendur í lúðrasveit Víðistaðaskóla settu hátíðlegan blæ á samkomuna í Hafnarborg með hressilegum lúðratónum í upphafi, ungir básúnuspilarar frá Tónkvísl, rytmadeild Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, tróðu upp með hvoru tveggja hugljúfum og rokkuðum lögum og nemendur í 4. bekk í Setbergsskóla voru með talkór.

Upplestrarhátíð sem stimplað hefur sig inn á landsvísu

Fyrsta upplestrarhátíðin var haldin í Hafnarfirði þann 4. mars 1997 og síðustu sautján árin hafa allir nemendur í 7. bekk á landsvísu tekið þátt í keppninni. Markmiðið frá upphafi hefur verið að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og skapa tækifæri fyrir kennara og foreldra að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð. Hver skóli ákveður þátttöku að hausti og velur tvo fulltrúa á glæsilegum hátíðum innan skólanna til að taka þátt í lokahátíðum fyrir sína hönd sem árlega er haldin í Hafnarborg fyrir grunnskóla Hafnarfjarðar. 

Myndir frá lokahátíðinni er að finna á Facebooksíðu Hafnarfjarðarbæjar –  sjá HÉR

Ábendingagátt