Vika6 – árlegt kynheilbrigðis átak

Fréttir

Vika6 byggir á danskri hugmynd og er tileinkuð því að vekja athygli á mikilvægi kynheilbrigðis og kynfræðslu fyrir börn og ungmenni. Ungmennin sjálf ákváðu þema vikunnar með þátttöku í könnun á meðan á undirbúningi stendur.  

Þema vikunnar í ár er kynlíf og menning 

Vika6 byggir á danskri hugmynd og er tileinkuð því að vekja athygli á mikilvægi kynheilbrigðis og kynfræðslu fyrir börn og ungmenni. Reykjavíkurborg hefur keyrt vikuna þrjú ár í röð og í ár stökkva fleiri sveitarfélög á vagninn með það fyrir augum að fá sem flesta til að taka þátt. Hafnarfjarðarbær er í hópi þessarra sveitarfélaga. Ungmennin sjálf ákváðu þema vikunnar með þátttöku í könnun á meðan á undirbúningi stendur. Í ár er þemað kynlíf og menning og er allt starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum hvatt til að setja kynheilbrigði á oddinn þessa vikuna. Foreldrar eru líka hvattir til þátttöku í vikunni með innihaldsríku og góðu samtali við börnin sín.  Það er aldrei nóg að spjalli um kynheilbrigði. 

KynlifOgMenningVika62022

Að læra að þekkja og viðra sín mörk og mörk annarra 

Í Hafnarfirði eru margir skólar, allar félagsmiðstöðvar, ungmennahús og Bókasafn Hafnarfjarðar að taka virkan þátt í vikunni. Dagskrá og fræðsla er ákveðin á hverjum stað fyrir sig og hefur hugmyndaflugið fengið að ráða för. Mun vikan í Hafnarfirði einkennast af lýsandi myndefni, fræðslu og greiðum aðgangi að öllu viðeigandi efni þ.á.m. bókum og hlaðvörpum. Sköpun og sköp koma einnig við sögu þar sem sumir hafa ákveðið að perla m.a. kynfæri og jafnvel skreyta kökur með líkamspörtum. Markmið með opinni umræðu og góðri fræðslu er að börn okkar og ungmenni læri að þekkja og viðra sín mörk og mörk annarra. Foreldrar og/eða forsjáraðilar eru líka hvattir til að nota tækifærið og spjalla við börnin sín. 

Aðgangur að áhugaverðu og skemmtilegu fræðsluefni 

Á vef Jafnréttisskólans er að finna fullt af áhugaverðu fræðsluefni og ráðleggingum sem allir áhugasamir geta nýtt sér.  Hugmyndir að námsefni, kveikjum og kennsluleiðbeiningum auk annars fróðleiks er flokkað eftir námsstigum og þar með aldri.

Vefur Jafnréttisskólans er fullur af fróðlegu efni 

Ábendingagátt