Vika6 framundan í grunnskólum Hafnarfjarðar 

Fréttir

Kynfræðsla er ekki aðeins kynlífsfræðsla, segir kennari sem hefur síðustu ár kennt kynfræðslu vikulega í Lækjarskóla. Fyrirkomulagið varð fyrirmynd annarra grunnskóla Hafnarfjarðar sem kenna nú einnig kynfræðslu vikulega. Vika6 í ár stendur 3.-7. febrúar.

 

 

Vika6 uppskeruhátíð kynfræðslunnar

„Vika6 er kynfræðsla í sinni víðustu mynd,“ segir Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, kynfræðslu- og náttúrufræðikennari í Lækjarskóla og kennslufulltrúi mannréttinda hjá Hafnarfjarðarbæ. Það er komið að hinni árlegu Viku6 í grunnskólum Hafnarfjarðar sem tileinkuð er kynheilbrigði og kynfræðslu í skólum. Hún stendur 3.-7. febrúar. 

Kynfræðsla er ekki aðeins lærdómur um líkamann og kynlíf, heldur ein besta forvarnarfræðsla sem til er,“ segir Kristín. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan hún hóf að kenna kynfræðslu í Lækjarskóla árið 2017. Ári síðar var kennslan orðin vikuleg. Það fréttu unglingar annarra grunnskóla Hafnarfjarðar og óskuðu eftir því sama. Nú er svo komið að allir á unglingastigi í bænum njóta þessarar kennslu og forvarnarstarfs vikulega.  

Það sem unga fólkið vill

„Þetta er gert því að þetta er það sem nemendurnir vilja. Ungmennaráð óskaði eftir þessu og Hafnarfjarðarbær brást við þeirri beiðni og gerði að skyldufagi, sem er liður í barnvænu sveitarfélagi,“ segir hún enda skólayfirvöld skuldbundin til að tryggja kynfræðslu og forvarnir í skólum. Kristín segir árangurinn hér í Hafnarfirði hafi vakið athygli enda hafi ekki öllum gengið jafnvel að koma fræðslunni á legg.  

„Ég hef kynnt þetta verkefni víða og allir jafn hissa á að okkur hafi tekist þetta.“ Kennarar grunnskólanna sem kenni kynfræðsluna hittist reglulega og styðji hvern annan. Ræði það sem gangi vel og hvað megi betur fara. 

„Vika6 er uppskeruhátíð sem kryddar skólastarfið,“ segir hún.   

Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, kynfræðslu- og náttúrufræðikennari í Lækjarskóla og kennslufulltrúi mannréttinda hjá Hafnarfjarðarbæ.

Vika6 sjötta vika ársins

Þema Viku6 eða sjöttu vika ársins er líkaminn og kynfæri. „Þetta er kynfræðsla, ekki kynlífsfræðsla,“ segir Kristín og brosir.  

„En í grunnin er unga fólkið okkar forvitið og það vill sjá meiri áherslu á kynlíf. En við erum ekki bara að tala um líkamann og kynlíf, það er minnsti hlutinn, við tölum um vellíðan, líkamlega og andlega heilsu. En þeim finnst ekkert vera kynfræðsla nema að talað sé um kynlíf, það endurspeglar þemað í ár sem er valið af ungmennum.“  

Kynfræðsla er fyrir allan aldur. „Hægt er að tala um líkamann í sinni stærstu mynd,“ segir hún. „Skapa góðan grunn fyrir framtíðina. Á eldri árum horfum við svo til kynlífs, en það er alls ekki það sem við kennum yngstu börnum.“ 

Góð þátttaka í Viku6

Undanfarin ár hefur Vika6 verið að festa sig í sessi í skólastarfi og nú stefnir í góða þátttöku. Gaman verður að fylgjast með öllu því frábæra starfi sem mun eiga sér stað í grunnskólum bæjarins þessa viku, en samkvæmt lögum eru skólar skuldbundnir til að veita fræðslu um mannréttindi, kynjajafnrétti og kynheilbrigði sem kynfræðsla fellur svo sannarlega undir.  

„Kynfræðsla er ein besta forvarnarfræðsla sem börn fá og tilvalið að nýta tækifærið og eiga spjallið líka heima fyrir,“ segir Kristín og leggur áherslu á að öll fræðsla taki mið af aldri og þroska nemenda. Hagur og farsæld þeirra sé ávallt höfð að leiðarljósi. 

Nú í vikunni hafa áhugasamir kennarar og allt starfsfólk félagsmiðstöðva fengið fræðslu og munu nemendur í 10. bekk fá smokka að gjöf frá Hafnarfjarðarbæ í vikunni. Skólar, félagsmiðstöðvar, ungmennahús og bókasöfn í Hafnarfirði taka virkan þátt í vikunni til að vekja athygli á kynheilbrigði með fjölbreyttum hætti.   

„Framundan er skemmtileg vika sem rammar starfið inn, Vika6,” segir Kristín. „Við höfum stigið stórt skref varðandi unglingana með því að binda kennsluna í stundatöfluna hjá þeim. Kennslan er markviss allt árið og fylgir þeim út í lífið. Við erum stolt af því. “ 

 

Ábendingagátt