Vika6 segir sex í hafnfirsku grunnskólunum

Barnvænt sveitarfélag Fréttir

„Vika6 er kynfræðsla í sinni víðustu mynd,“ segir Kristín Blöndal Ragnarsdóttir kynfræðslukennari en þemað í þessari sjöttu viku ársins í ár er öryggi og ofbeldi.

Vika6 uppskeruhátíð kynfræðslunnar 

„Vika6 er kynfræðsla í sinni víðustu mynd,“ segir Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, kynfræðslu- og náttúrufræðikennari í Lækjarskóla og kennslufulltrúi mannréttinda hjá Hafnarfjarðarbæ. Já, næsta vika er vikan tileinkuð kynheilbrigði og kynfræðslu í hafnfirskum skólum. Hún stendur 2.-6. febrúar.

„Öryggi og ofbeldi er áherslan í ár,“ segir Kristín. „Ungmenni velja þema á hverju ári. Nú völdu þau þetta og er það ákall frá þeim. Öll umræða í samfélaginu að undanförnu talar inn í þetta viðfangsefni. Þau vilja þekkja muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum. Þetta er flott þema og við fullorðna fólkið getum verið ánægð með þessa áherslu. Ég held það veiti ekki af svona fræðslu.“

Kristín segir 10. bekkinga fá smokka í hendur. „Það er smá uppbrot og skemmtilegt inn í þessa viku. Kennarar í unglingadeildum sem kenna kynfræðslu hafa fengið spil um eðlileg og óeðlileg samskipti,“ segir hún. „Hápunkturinn á vikunni er Grunnskólahátíðin, stóra ball grunnskólanna í Hafnarfirði. Við ræðum því hvernig við getum öll passað upp á hvert annað það kvöld.“

Kristín Blöndal Ragnarsdóttir, kynfræðslu- og náttúrufræðikennari í Lækjarskóla og kennslufulltrúi mannréttinda hjá Hafnarfjarðarbæ.

Uppbrot í sjöttu viku ársins

Kristín segir að þau sem hún hitti séu spennt fyrir vikunni. „Vika6 sé skemmtilegt uppbrot í skólastarfinu.“

En getur Kristínt nefnt dæmi um hvernig ofbeldi og öryggi í kynlífi er rætt? „Þetta snýst fyrst og fremst um samþykki, samskipti og virðingu milli aðila. Þú þarft alltaf að fá samþykki við öllu sem þú gerir við aðra manneskju,“ segir Kristín.

„Það er hægt að færa þetta þema í alla árganga og niður í leikskóla. Við ræðum hvernig við virðum mörk og það þurfum við að gera á öllum æviskeiðum.“

Hún segir að með samfélagsmiðlum hafi mörk afmáðst á nýjan hátt. „Unga fólkið okkar á svolítið erfitt með að setja mörk,“ segir hún. „Kannski hefur þetta alltaf verið svona og við verið óviss um  hvar við megum draga línuna. En með samfélagsmiðlum sjáum við að þeim finnst þau eiga rétt á tíma annarra; að vinir þeirra svari þeim strax og bregðist við. Það er bannað að „seen-a“ og „góst-a“. Það er ekki töff að segja nei. Þau vilja þóknast hvort öðru.“

Þau eiga sig sjálf

Unga fólkinu sé kennt að þau eigi sig og sinn tíma sjálf. „Þau verða að geta sett öðru fólki mörk. Þetta er þarft umræðuefni og fræðsla inn í skólana. Það besta er að þetta vilja þau og óska eftir.  Þau eru ringluð og finnst sjálfsagt að gefa hvort öðru upp leyniorð, aðgang að miðlum sínum til að sýna að þau séu traustsins verð,“ tekur Kristín sem dæmi.

„Þetta er vandasamt þema en mér finnst vera hægt að útfæra það á fjölbreyttan hátt fyrir alla aldurshópa. Hvort sem um er að ræða ástarsambönd, eða vina- og fjölskyldusambönd, verðum að upplifa okkur örugg og vita að mörk séu virt. Þetta blandast allt saman við agaleysið í samfélaginu. Okkur finnst við eiga tilkall til allskonar hluta en þurfum að skilja að allt er ekki sjálfssagt.“

Ábendingagátt