Vilja aukna þátttöku íbúa af erlendum uppruna

Fréttir

Í kringum 13% íbúa Hafnarfjarðarbæjar er af erlendum uppruna. Hafnarfjarðarbær hefur á undanförum árum markvisst lagt aukna áherslu á málefni innflytjenda og framundan er opnun á enskri útgáfu af vef bæjarins en Facebook síðan Living in Hafnarfjörður var opnuð í vor. 

Í kringum 13% íbúa Hafnarfjarðarbæjar er af erlendum uppruna, þar af eru Pólverjar fjölmennastir, eins og víðast hvar á landinu. Næstir á eftir þeim koma Litháar, Lettar, Rúmenar og Portúgalar. Árið 2019 voru 114 innflytjendur í Hafnarfirði 67 ára og eldri og það er hópur sem oft vill gleymast í umræðunni. Hafnarfjarðarbær hefur á undanförum árum markvisst lagt aukna áherslu á málefni innflytjenda og Ólafía Björk Ívarsdóttir hefur nú í eitt ár verið verkefnastjóri fjölmenningar hjá bænum, sem er 50% starf og nýtt stöðugildi á fjölskyldu- og barnamálasviði. Framundan er opnun á enskri útgáfu af vef bæjarins en Facebook síðan Living in Hafnarfjörður var opnuð í vor. 

Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi við Ólafíu.

Fyrstu mánuðina eftir að Ólafía tók við starfinu segir hún hafa verið mjög viðburðaríka og farið í að taka púlsinn á öllu saman. „Ég finn að fólki finnst þetta málefni mikilvægt og mér hefur verið tekið mjög vel. Við viljum fyrst og fremst að fólk af erlendum uppruna fái pláss sem þátttakendur hér í samfélaginu, hvort sem það eru á viðburðum, í upplýsingagjöf, sem starfsfólk bæjarins eða öðru. Við höfum verið að auka þýðingar á upplýsingum og höfum lagt áherslu á barnafjölskyldur, félagsþjónustuna og almennar upplýsingar.“ Þá er jafnframt starfandi fjölmenningarráð með fimm fulltrúum. Nýtt ráð var skipað í vor og hittist mánaðarlega. Ráðið skipa einn starfsmaður bæjarins af erlendum uppruna, ein frá samtökum kvenna af erlendum uppruna, einn frá samtökunum Móðurmál og tveir skipaðir af fjölskylduráði. Fjölmenningarráðið er ráðgefandi fyrir starfsemi Hafnarfjarðarbæjar í málaflokknum.

Olla2Í afgreiðslu ráðhúss bæjarins við Strandgötu er pólskumælandi starfsmaður. Mynd/OBÞ

Pólskumælandi starfsmaður í afgreiðslu ráðhússins

Ólafía segir að eðlilega komi fólk á misjöfnum aldri til bæjarins og hópurinn sé mjög fjölbreyttur og með misjafnar þarfir. „Það er stór kostur að Hafnarfjörður er bara 30.000 manna bær og því hægt að ná ágætri yfirsýn. Ég starfa þvert á öll svið og eitt af meginmarkmiðunum með mínu starfi eru að gera kynninga- og upplýsingaefni fyrir erlenda íbúa, s.s. á Facebook og vefnum í samstarfi við aðra og þá sérstaklega þjónustu- og þróunarsvið. Svo verður það þróað áfram.“

Lla313 prósent íbúa Hafnarfjarðar eru af erlendum uppruna og stór hluti þeirra er fjölskyldufólk. Mynd/OBÞ

Á mennta- og lýðheilsusviði starfar kennsluráðgjafi sem sé verkefnastjóri fjölmenningar í leik- og grunnskólum bæjarins og í skólunum er margt spennandi í gangi. Í þjónustuveri ráðhússins við Strandgötu sé pólskumælandi starfsmaður og Ólafía segir það hafa reynst mjög vel. „Það styttir allar boðleiðir og er mikil ánægja með þá þjónustu, bæði hjá starfsfólki og íbúum. Svo getur fólk fengið þjónustu á ensku. Eins og hjá öðrum bæjarbúum brennur ýmislegt á fólki og við reynum að mæta því af bestu getu.“ Stoðdeild flóttamanna og umsækjenda um alþjóðlega vernd þjónustar svo umsækjendur skv. samningi við Útlendingastofnun og veitir þjónustu til flóttamanna sem fengið hafa vernd.

A4Mikill vilji er fyrir aukna þátttöku erlendra barna í íþróttum. Mynd/OBÞ 

Rík áhersla á fjölmenningu á söfnum

Þá segir Ólafía að mikill vilji sé fyrir því að auka þátttöku erlendra barna í íþróttum og auka hlut fjölmenningar í hinni ýmsu starfsemi í bænum. Bókasafn Hafnarfjarðar sé þar til mikillar fyrirmyndar. „Þar hefur verið lögð rík áhersla á fjölmenningu, s.s. með verkefni á bókasafninu sem heitir Anna, en það er vettvangur fyrir konur og við sáum fyrir okkur að þær myndu hittast og ná tengslum og þróa starfið áfram í þá átt sem þær vilja og hafa áhuga á. Á safnið hafa komið listamenn af erlendum uppruna, myndað tengingu og a.m.k. einn þeirra mun leiða listasmiðju í vetur. Hittingarnir verða áfram í vetur og allar konur eru velkomnar. Í september stendur til að halda tvo viðburði, annar er bingó og hinn er leiðsögn um sýninguna Villiblóm í Hafnarborg.“

A5Á bókasafni Hafnarfjarðar er góður safnkostur á erlendum tungumálum. Mynd/OBÞ

Á bókasafninu er líka mjög fjölbreytt starf sem er miðað að pólskumælandi íbúum og góður safnkostur á pólsku. Þar er einnig pólskumælandi starfsmaður. Þar er einnig nýbúið að kaupa sérvaldar gæða-barnabækur á ýmsum tungumálum, s.s. pólsku, ensku, spænsku og arabísku. Nútímabókasöfn og söfn eru orðin að félagsmiðstöðvum þar sem allir eru velkomnir. Svo er draumur að geta stutt við sjálfsprottnar samkomur sem tengja fólkið saman. Í Hafnarborg var t.d. tónlistarnámskeiðið Tónagull á pólsku fyrir ung börn á sunnudögum í mars sem byrjar vonandi aftur í haust.

„Aðgengi að upplýsingum eflir sjálfstæði og öryggiskennd hjá fólki og við hvetjum alla til að hafa samband. Einnig hvetjum við íbúa Hafnarfjarðar til að vera vakandi gagnvart nágrönnum af erlendum uppruna og spyrja hvort þau séu vel upplýst og benda þeim á þessar síður,“
segir Ólafía að endingu.

Viðtal við Ólafíu birtist í Hafnfirðingi 29. ágúst 2020.

Ábendingagátt