Viljum gera þjónustuna snjallari

Fréttir

Sigurjón Ólafsson tók við nýju starfi sem sviðsstjóri þjónustu og þróunar hjá Hafnarfjarðarbæ í haustbyrjun. Sigurjón hefur verið þátttakandi í stafrænni vegferð margra stofnana og fyrirtækja og hefur stýrt stórum verkefnum, aðstoðað við að breyta stafrænni ásýnd og við að innleiða ný vinnubrögð og hugsunarhátt. 

Sigurjón Ólafsson tók við nýju starfi sem sviðsstjóri þjónustu og þróunar hjá Hafnarfjarðarbæ í haustbyrjun. Sigurjón hefur verið þátttakandi í stafrænni vegferð margra stofnana og fyrirtækja og hefur stýrt stórum verkefnum, aðstoðað við að breyta stafrænni ásýnd og við að innleiða ný vinnubrögð og hugsunarhátt. Hans teymi hefur látið til sín taka þessa fyrstu mánuði, s.s. eflt upplýsingaflæði til bæjarbúa í formi frétta á vefnum, í hlaðvarpi og nýlega var tekin í notkun bæjarvefsjáin Granni. Bæjarblaðið Hafnfirðingur ræddi nýlega við Sigurjón.  

Þetta nýja svið, þjónustu- og þróunarsvið hjá Hafnarfjarðarbæ, starfar þvert á allar einingar bæjarins og Sigurjón segir að honum sem sviðsstjóra þar sé ætlað að fara í stafræna umbreytingu á þjónustu bæjarins. „Það er ætlunin að straumlínulaga hana, gera hana skilvirkari og fara meira í átt að sjálfsafgreiðslu íbúanna,“ segir Sigurjón, sem einnig hefur gefið sér góðan tíma í að kynnast stórum hópi samstarfsfólks síns, en um 2000 manns starfa að jafnaði hjá Hafnarfjarðarbæ. „Ég er búinn að gera mikið af því að hitta fólk, búa til liðsheild og teymi. Einnig að öðlast meiri skilning á þessari gríðarlega fjölbreyttu þjónustu sem svona stórt sveitarfélag veitir.“

Áhugi á fólki mikilvægur

Aðspurður um hvaða mannkosti þarf í starf sem þetta svarar Sigurjón því til að áhugi á fólki sé mikilvægur, þekking á stafrænni miðlun og að brenna fyrir þjónustu. „Sveitarfélag er þjónustufyrirtæki og ef áhugi á að þjónusta fólk er ekki til staðar þá er maður ekki á réttum stað. Það er því mikilvægt að eiga gott með að vinna með fólki, hafa áhuga á ólíkum málaflokkum og setja sig inn í hluti.“

Ábyrgð bæjarins að miðla

Um miðjan september hóf Hafnarfjarðarbær framleiðslu á hlaðvarpsþáttum sem Sigurjón segir vera lið í að auka skilning á þjónustu bæjarins með viðtölum við starfsfólk bæjarins og kynnast þeirra hlið á störfunum. „Við erum að setja andlit og rödd á bak við þjónustuna. Við reynum í þessum þáttum að hafa jafnt hlutfall kynja, breiðan aldur og dekka þessi sex svið hjá bænum. Viljum gera þjónustuna mannlegri.“ Hann bætir við að einhverjir gárungar hafi kallað teymið sitt fréttastofu Hafnarfjarðarbæjar, en tekur fram að það hvíli á bænum sú ábyrgð að miðla. „Það er gjarnan kvartað undan ónægu upplýsingastreymi og við lítum svo á að okkur beri að miðla reglulegum fréttum og upplýsingum inn á okkar miðla. Það fer að verða æ erfiðara að snerta alla með einni leið. Þess vegna notum við vef Hafnarfjarðarbæjar, bæjarmiðla, samfélagsmiðla, myndbandamiðlun, hlaðvarp og reynum að komast að í stærri fjölmiðlum.“ 

Granni djúp upplýsingagátt

Sigurjón nefnir þessu til viðbótar mikilvægi gagnsæis. „Við erum að opna gögn, höfum opið bókhald, fólk getur sótt lifandi gögn um hvernig vefurinn okkar er sóttur og fleiri mælaborð eru í undirbúningi. Við erum að styrkja íbúalýðræðið í gegnum gáttir eins og Betri Hafnarfjörð og við erum með í undirbúningi að stofna íbúaráð um þjónustu bæjarins. Við ætlum að eiga gott samtal við íbúana og ég hvet bæjarbúa til að skoða nýju útgáfuna af bæjarvefsjánni Granna. Þar er að finna ógrynni upplýsinga m.a. um skipulag bæjarins, húsateikningar, lagnateikningar, stofnanir og þjónustu bæjarins, auk tölfræðiupplýsinga um samgöngumál. Þetta er nánast óendanlega djúp upplýsingagátt.“ Framundan hjá Sigurjóni og sviðinu hans er að vinna að stefnumótun og forgangsröðun verkefna þar sem unnið er í teymum með aðkomu sérfræðinga innan og utan sveitarfélagsins. „Íbúar eiga að geta afgreitt sig sem mest sjálfir og við notum upplýsingatækni og snjallar lausnir til þess. Eina leiðin til að gera þetta skynsamlega er í góðu samstarfi við önnur sveitarfélög. Þannig er hægt að samræma og nýta þekkingu og reynslu. Það er verk að vinna,“ segir Sigurjón að endingu. 

Viðtal við Sigurjón birtist í Hafnfirðingi 19. desember 2019.

Ábendingagátt