Viltu losna við grenitré úr þínum garði?

Fréttir

Líkt og undanfarin ár býðst Hafnarfjarðarbær til að fjarlægja grenitré úr heimagörðum íbúa, þeim að kostnaðarlausu. Leit stendur yfir að grenitrjám sem lokið hafa sínu hlutverki hjá garðeigendum og hægt væri að koma fallega fyrir á opnum svæðum á aðventunni.

Líkt og undanfarin ár býðst Hafnarfjarðarbær til að fjarlægja grenitré úr heimagörðum íbúa, þeim að kostnaðarlausu. Leit stendur yfir að grenitrjám sem lokið hafa sínu hlutverki hjá garðeigendum og hægt væri að koma fallega fyrir á opnum svæðum á aðventunni.

Lumar þú á grenitré í þínum garði sem gæti orðið gleðigjafi á aðventunni?

Grenitré geta orðið mjög há og breið og geta tekið ansi mikið pláss. Sumir íbúar eiga í vandræðum með þessi tré og kostnaðarsamt fyrir garðeigendur að fjarlægja. Því ákvað Hafnarfjarðarbær fyrir einhverjum árum síðan að bjóða upp á fjarlægja trén, garðeigendum að kostnaðarlausu og endurnýta þau á opnum svæðum á aðventunni. Þannig sendir bærinn mannskap og tæki á staðinn til að fjarlægja tré sem nýtist sem gleðigjafi yfir jólahátíðina. Að hátíð lokinni er tréð nýtt í trjákurl í bæjarlandinu.

Uppfyllir þitt tré meðfylgjandi skilyrði?

Skilyrðin eru að tréð hafi náð a.m.k. fimm metra hæð, að vaxtarlagið sé gott þ.e.a.s. að tréð sé vel greint allan hringinn og það sé auðvelt að komast að því til að fella það niður við jörðu. Trén verða felld og sett upp á fyrirfram ákveðna staði í nóvember.

Hafðu samband

Allir áhugasamir eru vinsamlega beðnir um að setja sig í samband við garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar sem kemur á staðinn og metur ástand trésins út frá gefnum skilyrðum. Garðyrkjustjóri Hafnarfjarðarbæjar er Ingibjörg Sigurðardóttir. Hægt er að hafa samband við Ingibjörgu í síma 585-5670 og 585-5674 eða senda tölvupóst á: ingibjorgs@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt