Viltu vera með á umhverfisvaktinni 2023?

Fréttir

Félögum og hópum í Hafnarfirði stendur til boða að vakta umhverfið, þ.e. taka að sér að sjá um hreinsun á skilgreindu landsvæði gegn fjárstyrk fyrir framkvæmdina.

Samstarfsverkefni sveitarfélags og félagasamtaka um umhirðu bæjarlandsins

Hafnarfjarðarbær hættir aldrei á umhverfisvaktinni. Verkefnið „UMHVERFISVAKTIN“ snýr að umhirðu og fegrun bæjarins og er markmiðið sem fyrr að efla umhverfisvitund íbúa, fegurri bær og aukin hreinsun. Félögum og hópum í Hafnarfirði stendur til boða að vakta umhverfið, þ.e. taka að sér að sjá um hreinsun á skilgreindu landsvæði, gegn 150.000 fjárstyrk fyrir hreinsun á afmörkuðu svæði í tvígang yfir árið.

Aðeins tólf hópar komast að í hvert skipti

Hafnarfirði hefur verið skipt upp í tólf svæði. Á hverju svæði er lögð áhersla á að hreinsa rusl og drasl með aðalstígum og stofnbrautum, með lækjum/tjörnum, strandlengju, á náttúrulegum hraunasvæðum og opnum/grænum rýmum. Þeir hópar sem fyrir valinu verða hreinsa sitt svæði tvisvar sinnum á ári, einu sinni á tímabilinu 1. maí – 1. júní og einu sinni á tímabilinu 1. – 30. september.

Umhverfisvaktin svæðaskipting

Hverjir geta verið á vaktinni?

Öllum félögum, samtökum og hópum í Hafnarfirði stendur til boða að sækja um þátttöku í Umhverfisvaktinni. Á hverju svæði er einn hópur og geta alls tólf hópar gengið til samstarfs við bæinn í verkefninu. Við úthlutun á svæðum verður tekið tillit til samsetningar hópsins og gerðar svæðis, þ.e. hvernig það er yfirferðar. Hver hópur skal hafa hópstjóra sem sér um samskipti við umhverfis- og skipulagssvið bæjarins og skipuleggur í samráði við það hvenær farið er í hreinsun og hvernig staðið verður að henni. Sæki hópar skipaðir börnum eða unglingum um þátttöku (t.d. yngri flokkar íþróttafélaga eða skátaflokkar) er sett það skilyrði að hópstjóri og ábyrgðaraðili sé fullorðinn og ennfremur að fullorðnir starfi með börnunum við hreinsunina. Ástæður þess eru fyrst og fremst öryggiskröfur þar sem hreinsunin mun fara fram þar sem hættur geta leynst nærri s.s. við umferðargötur, læk og strönd.

Í umsókn hópa þurfa meðfylgjandi upplýsingar að koma fram:

  • Nafn félags/samtaka/hóps
  • Helstu markmið og tilgangur félagsins
  • Stutt greinargerð um starfsemina síðastliðin 3 ár
  • Fjöldi félaga og aldursdreifing (börn, unglingar og fullorðnir)
  • Hverjir munu vinna verkið (ef barna/unglinga hópur, hverjir vinna með þeim)
  • Hvernig nota á styrkinn
  • Óskir um svæði ef einhverjar eru
  • Nafn og upplýsingar um hópstjóra (heimilisfang, sími, netfang)

Starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðarbæjar hafa eftirlit með framkvæmd og vinnu á hverju svæði fyrir sig, meta hvernig staðið er að framkvæmd og koma með tillögur til úrbóta eftir því sem ástæða er til svo og sjá um að koma ruslinu til förgunar. Hægt er að fá ruslapoka hjá þjónustumiðstöð Hafnarfjarðarbæjar að Norðurhellu 2, óski hópar eftir því.

Umsóknarfrestur er til 15. apríl 2023. Umsóknir eiga að berast til: ishmael@hafnarfjordur.is

Frekari upplýsingar veitir þjónustuver bæjarins í s: 585-5500 og Ishmael David: ishmael@hafnarfjordur.is

Ábendingagátt