Viltu vera vistforeldri?

Fréttir

Auglýst er eftir góðum fjölskyldum sem eru tilbúnar að taka að sér börn tímabundið.

Barnavernd Hafnarfjarðar leitar að tveimur fjölskyldum sem eru tilbúnar að taka á móti börnum sem vista þarf utan heimilis í skemmri tíma.

Hlutverk vistforeldra er að veita börnum móttöku, þar með talið í bráðatilvikum til að tryggja öryggi barnanna, greiða vanda þeirra eða til könnunar á aðstæðum þeirra.

Þegar barn er á heimilinu er lögð áhersla á að það stundi sinn heimaskóla, sæki tómstundir sínar og geti haldið vinatengslum. Því er kostur ef fjölskyldurnar búi í Hafnarfirði.

Við úttekt á heimilunum er aflað upplýsinga úr sakaskrá, vottorðs frá heilbrigðiseftirliti og skýrslu vegna eldvarna auk umsagnar frá barnaverndarnefnd. Samkvæmt 84. gr. barnaverndarlaga skulu barnaverndarnefndir gera samninga við vistforeldra á einkaheimili.

Mikilvægt er að einn aðili fjölskyldunnar sinni eingöngu þessu starfi og að auka herbergi sé í húsnæðinu sem alltaf er tilbúið fyrir barn/börn.

Starfið er fjölbreytt og gefandi og unnið í nánu samstarfi við starfsmenn barnaverndar. Reynsla af starfi með börnum sem nýtist við starfið er mikils metin.

Umsóknarfrestur er til 16. mars 2020

Nánari upplýsingar veitir Helena Unnarsdóttir, deildarstjóri barnaverndar, netfang helenau@hafnarfjordur.is, sími 585-5500 . Umsóknir eru sendar á sama netfang. 

Ábendingagátt