Vímuefnafræðslan VELDU fyrir ungmennin okkar

Fréttir

Hafnarfjarðarbær í samstarfi við Heilsulausnir mun á næstu vikum bjóða nemendum í 9. og 10. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar upp á vímuefnafræðsluna Veldu með það fyrir augum að upplýsa ungmennin okkar um skaðsemi vímuefna og ávanabindingu samhliða því að styrkja sjálfsmynd þeirra. Foreldrum mun standa til boða fjarfræðsla þar sem hægt er að komast í beint samband við fræðarana. 

Hafnarfjarðarbær í samstarfi við fyrirtækið Heilsulausnir mun á næstu vikum bjóða nemendum í 9. og 10. bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðar upp á Vímuefnafræðsluna Veldu  með það fyrir augum að upplýsa ungmennin okkar um skaðsemi vímuefna og ávanabindingu samhliða því að styrkja sjálfsmynd þeirra. Fræðarar á vegum Heilsulausna, sem eru hjúkrunarfræðingar að mennt, byggja fræðsluefni sitt á gagnreyndum heimildum ásamt reynslu í starfi og leggja áherslu á virka þátttöku ungmennanna sjálfra í fræðslunni. 

Heimsóknir í grunnskólana verða sem hér segir (með fyrirvara um breytingar):

  • 1. október – Skarðshlíðarskóli
  • 6. október – Áslandsskóli
  • 8. október – Lækjarskóli
  • 13. október – Hvaleyrarskóli
  • 20. október – Víðistaðaskóli
  • 27. október – Öldutúnsskóli
  • 27. október – NÚ
  • 29. október – Setbergsskóli
  • 3. nóvember – Hraunvallaskóli 

Rafræn foreldrafræðsla í kjölfar heimsóknar 

Foreldrum stendur jafnframt til boða rafræn foreldrafræðsla samdægurs í kjölfar heimsóknar í „sinn skóla“ þar sem farið er yfir helstu efnisatriði fræðslu auk þess sem hægt er að komast í beint samband við fræðarana. Viðkomandi skóli deilir tengil með foreldrum og/eða forráðamönnum þeirra nemenda sem fræðsluna fá. Fyrirlesturinn
opnast kl. 16 sama daga og fræðslan í skólanum fer fram og er aðgengilegur til miðnættis sama
kvöld.  Þannig hafa foreldrar og forráðamenn átta klukkustundir til að horfa á fyrirlesturinn auk þess sem hægt er að ná sambandi við fræðarana innan sama tímaramma. 

Það eiga allir val! Aðstoðum unga fólkið okkar við að vanda valið

Á hverju ári taka nemendur í 8.-10. bekk í grunnskólum Hafnarfjarðar þátt í stórri landskönnun varðandi vímuefnaneyslu og er áhersla lögð á að meta og skoða sérstaklega þá þætti sem virðast skipta máli í lífi ungmenna hverju sinni. Þannig var í fyrirlögninni í ár t.d. bætt við spurningum sem snúa að svefnvenjum ungmenna, koffínneyslu og rafrettunotkun. Hafnarfjarðarbær, líkt og önnur sveitarfélög sem taka þátt í könnun, fær sérstaka skýrslu fyrir sveitarfélagið og gefa niðurstöðurnar ákveðna mynd af lífstíl, viðhorfi og vímuefnaneyslu hafnfirskra ungmenna á hverjum tímapunkti. Niðurstöður könnunar í ár og möguleg áhrif Covid19 á samfélagið okkar ýttu Heilsubænum Hafnarfirði af stað í það verkefni að auka enn frekar við fjölbreytileikann í því öfluga forvarnarstarfi sem þegar er í gangi í sveitarfélaginu. Niðurstöður könnunar gefa ákveðnar vísbendingar um mögulega aukna notkun ávanabindandi vímuefna hjá ungmennunum okkar og við því þarf að bregðast. Vímuefnafræðslan Veldu varð fyrir valinu.

LykiltolurUngmenna2020Lykiltölur hafnfirskra ungmenna – niðurstaða könnunar í febrúar 2020 

Öflugt forvarnarstarf er lykill að árangri og aukinni vellíðan

Heilsubærinn Hafnarfjörður tekur forvarnarhlutverk sitt alvarlega og hefur um nokkurt skeið farið þá leið að bjóða upp á fræðslu frá fyrirmyndum og yngri fræðurum innan grunnskóla Hafnarfjarðar. Hefur þessi leið mælst vel fyrir hjá nemendum, foreldrum og starfsfólki skólanna. Umræðan verður oft opnari og öðruvísi og þykir því góð viðbót við þá fræðslu og hvatningu sem á sér stað með öðrum hætti í gegnum skólana, félagsmiðstöðvar og/eða ungmennahús. Þannig hefur hafnfirski tónlistarmaðurinn Jón Jónsson t.a.m. heimsótt alla nemendur í 8. bekk í upphafi hvers árs með fræðslu um heilbrigðan lífsstíl og rafrettunotkun og Geðfræðslufélagið Hugrún heimsótt nemendur í 9. bekk með fræðslu um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði. Jákvæðar og uppbyggilegar forvarnir eru til þess fallnar að styrkja ungmennin okkar og hvetja þau til að vanda valið og hugsa um heilsuna; líkamlega og andlega.

Vímuefnafræðslan heitir VELDU sem vísar í að allir eigi val og það sé mikilvægt að taka ákvörðun um það hvaða stefnu maður vill taka í lífinu.  

Ábendingagátt