Vinadreki á Drekavöllum

Fréttir

Risastór vinadreki liðaðist um Drekavelli í Hafnarfirði nú í morgun og samanstóð drekinn af hátt í 1200 nemendum, leikskólabörnum og starfsmönnum við Hraunvallaskóla. Vinadrekinn er lokahnykkur Hraunvallaleika sem haldnir hafa verið við skólann síðustu þrjá dagana.

Risastór vinadreki
liðaðist um Drekavelli í Hafnarfirði nú í morgun og samanstóð drekinn af hátt í
1200 nemendum, leikskólabörnum og starfsmönnum við Hraunvallaskóla. Vinadrekinn
er lokahnykkur Hraunvallaleika sem haldnir hafa verið við skólann síðustu þrjá
dagana. Leikarnir tengja saman nemendur á öllum aldri og hafa þann góða tilgang
að efla samskipti og góðan skólaanda.  
 

Síðustu þrjá daga hafa staðið yfir árlegir Hraunvallaleikar
í Hraunvallaskóla þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og búinn til
gleðilegur viðburður þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og
skemmtun. Á Hraunvallaleikunum er tekist á við fjölbreytt verkefni, þrautir og
leiki þar sem allir fá að spreyta sig og stórir og smáir hjálpast að. Nemendum
á öllum aldri er skipt upp í 66 hópa og er hópstýring í höndum nemenda úr
unglingadeild. Hópstjórar fylgja sínum hópi eftir alla dagana og leiða hann í
gegnum 19 skemmtilegar þrautir á degi hverjum. Markmið leikanna er að tengja
saman nemendur, efla samskipti og góðan skólaanda. Meðal annars hefur fjölmiðlahópur,
Varlafréttir, verið starfandi og hefur hópurinn tekið myndir og skrifað um það
sem er að gerast í skólanum þessa daga. Uppskeruhátíð leikanna var haldin í dag
þar sem allir nemendur skólans, leikskólakrakkar frá Hraunvallaleikskóla og
kennarar bjuggu til risastóran vinadreka til að sýna samstarf sitt og vináttu
allra aldurshópa í verki ásamt því að sýna og sjá afrakstur þeirra hópa sem í
gangi hafa verið. Fremst í vinadrekanum voru nemendur í 10. bekk með
heimatilbúið drekahöfuð og á eftir komu allir nemendur og starfsfólk skólans í
halarófu, íklæddir drekalitum. Hraunvallaskóli er einn stærsti grunnskóli
landsins með um 890 nemendur á grunnskólastigi og 100 nemendur á
leikskólastigi.

Sjá Varlafréttir nemenda frá Hraunvallaleikunum

Ábendingagátt