Vinnuskólinn fær Grænfánann í þriðja sinn

Fréttir

Vinnuskóli Hafnarfjarðar hlaut viðurkenningu í þriðja sinn sem skóli á grænni grein og fékk Grænfánann afhentan við hátíðlega athöfn fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum

Vinnuskóli Hafnarfjarðar hlaut viðurkenningu í þriðja sinn sem skóli á grænni grein og fékk Grænfánann afhentan við hátíðlega athöfn fyrir framúrskarandi árangur í umhverfismálum. 

Þrír íslenskir vinnuskólar eru á grænni grein

Árið 2019 setti Vinnuskóli Hafnarfjarðar sér það markmið að hætta alfarið notkun á einnota umbúðum og flokka betur úrgang. Nemendur í Vinnuskólanum og starfsmenn hans sýndu framúrskarandi árangur í þeim málum og að launum hlaut skólinn Grænfánann. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning veitt skólum sem huga að umhverfismálum og vinna í átt að sjálfbærni. Landvernd hefur umsjón með verkefninu á Íslandi, en þeir skólar sem hljóta viðurkenninguna fá titilinn skólar á grænni grein. Vinnuskóli Hafnarfjarðar er einn fárra vinnuskóla á grænni grein, einn þriggja sem hafa fengið Grænfánann.

IMG_4540Við athöfnina var lesið upp frumsamið ljóð sem meðlimir jafningjafræðslu sömdu

Starfa samkvæmt umhverfissáttmála og umhverfisstefnu 

Í byrjun sumars 2019 var settur á laggirnar sérstakur umhverfishópur sem taldi hóp ungmenna. Hópurinn samdi umhverfissáttmála og út frá honum var svo samin umhverfisstefna Vinnuskóla Hafnarfjarðar. Umhverfissáttmálinn var hafður í hávegum allt sumarið. Hann fjallar um að lögð sé áhersla á fræðslu um umhverfisvernd, endurnýtingu efnis, orkusparnað, moltun lífræns úrgangs og að vera til fyrirmyndar í umhverfisvernd. Umhverfisstefna Vinnuskólans er að vera til fyrirmyndar í umhverfismálum, vekja alla starfsmenn sína til umhugsunar um umhverfismál, skapa jákvæða umræðu um umhverfismál og að kynna grænfánastarfið og mikilvægi þess til starfsmanna sinna.

Ýmsar leiðir farnar til að uppfylla markmiðin

Til að vinna að því markmiði að nota engar einnota umbúðir voru farnar ýmsar leiðir. Hver og einn starfsmaður notaði kaffibolla merktan sér í stað þess að nota einnota pappamál eða plastglös. Nemendur voru hvattir til að koma með fjölnota nestisbox í stað plastpoka og nota vatnsbrúsa í staðinn fyrir að koma með fernur eða plastflöskur. Rusl vegna nestistíma minnkaði því til muna. Það rusl sem skapaðist var svo ávallt flokkað í viðeigandi tunnur. Árið 2019 sá umhverfishópurinn um að fræða nemendur um umhverfismál á jafningjagrundvelli. Margir í umhverfishópnum voru í byrjun sumars vel að sér í umhverfismálum og stóðu sig með prýði við fræðsluna yfir allt sumarið. Hópurinn fræddi ekki aðeins nemendur, heldur veittu hann bæjarráði og bæjarstarfsmönnum fræðslu og fékk þar hrós fyrir mikilvægt starf. Í ár verður jafningjafræðslan og sérstakur grænn leiðbeinandi með umhverfisfræðslu handa nemendum Vinnuskólans.

Ný markmið í átt að sjálfbærni þetta sumarið

Þar sem grænfáninn er aðeins veittur eitt ár í senn er unnið að nýjum markmiðum í átt að sjálfbærni þetta sumar, til að Vinnuskóli Hafnarfjarðar verði áfram skóli á grænni grein. Í ár verður stigið skrefinu lengra og bætt við markmiðum sem stuðla að sjálfbærni skólans. Ekki verður bara lögð áhersla á það að sleppa einnota umbúðum og flokka úrgang, heldur verður unnið í átt að því molta allan lífrænan úrgang og hvatt til þess að ganga/hjóla/nota almenningssamgöngur í vinnuna.

Sjá upplýsingar um Vinnuskóla Hafnarfjarðar

Ábendingagátt