“Vítamínsprauta í hjartað”

Fréttir

Gísli Rafn Ólafsson kom í heimsókn í Víðistaðaskóla síðastliðinn föstudag og hélt fyrirlestur um reynslu sína af hjálparstörfum fyrir 10. bekkinga.

Gísli Rafn Ólafsson kom í heimsókn í Víðistaðaskóla síðastliðinn föstudag og hélt fyrirlestur um reynslu sína af hjálparstörfum fyrir 10. bekkinga. Gísli Rafn ræddi einnig um hvernig nemendur geta hjálpað og lagt sitt að mörkum í hjálparstarfi.

Gísli Rafn hefur starfað út um allan heim við hjálparstörf og er sérfræðingur í að nýta tækni við samhæfingu þegar náttúruhamfarir dynja yfir. Nemendur hlustuðu af miklum áhuga og það mátti heyra saumnál detta þegar Gísli Rafn lýsti reynslu sinni af því að koma að líkum eftir skjálftann mikla á Haítí árið 2010. Gísli Rafn var stjórnandi íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem fór til Haítí.

Það var áhugavert að heyra hvaða leiðir hann notar til að vinna úr erfiðum tilfinningum tengdum hjálparstörfum. Það sem kemur honum í gegnum þetta er tilfinningin við að bjarga öðrum. Gísli Rafn benti á að ein af okkar grunnþörfum er að hjálpa öðrum. Okkur líður vel við að hjálpa. Það að bjarga öðrum er að hans sögn vítamínsprauta í hjartað.

Nemendur voru duglegir við að spyrja spurninga og fengu mörg svör um e-bólu og störf Gísla Rafns í Vestur-Afríku síðasta vetur. En Gísli Rafn fór til Afríku á vegum Nethope sem eru regnhlífarsamtök 42 stærstu hjálparsamtaka í heimi.

Það sem brann á nemendum var hvað getum við gert í dag til þess að hjálpa? Gísli Rafn benti á að unglingar geta líka hjálpað, m.a. tekið þátt í ungliðastarfi hjá Rauða krossinum og björgunarsveitum. Eins geta unglingar fengið hugmyndir sjálfir að því hvernig þeir geta lagt sitt að mörkum, t.d. safnað pening á einhvern hátt. Einnig væri mikilvægt að muna að tími er eitthvað sem við getum öll gefið, samvera með öðrum, hjálpað öðrum, kennt öðrum. Tökum vel á móti þeim sem koma til Íslands og þeim sem eru væntanlegir til landsins. Kannski koma einhverjir nýir nemendur í Víðistaðaskóla, t.d. frá Sýrlandi. Þá geta nemendur lagt sitt að mörkum, sýnt vináttu, kennt þeim tungumálið o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að kynnast börnum og unglingum frá öðrum menningarheimum.

Við þökkum Gísla Rafni Ólafssyni kærlega fyrir fróðlegan og hvetjandi fyrirlestur.

Ábendingagátt