Yfir 4.000 mættu á Heima og himingeima

Fréttir

Yfir 4.000 gestir mættu á búninga- og leikjasamkomuna Heimar og Himingeimar í Hafnarfirði um helgina. Bókasafn bæjarins stóð að samkomunni og bjóst við um þúsund gestum.

Heimar og himingeimar hátíð sem sló í gegn!

„Þetta var klikkað,“ segir Unnur Helga Möller, verkefnastjóri viðburða hjá Bókasafni Hafnarfjarðar. „Allir svo rosalega glaðir. Það gekk svo gífurlega vel. Bókasafnið var pakkað frá opnun til lokunar,“ segir hún um þann mikla fjölda gesta sem sótti búninga- og leikjasamkomuna Heimar og Himingeimar í Hafnarfirði um helgina. Yfir 4.000 gestir mættu. Bókasafn bæjarins stóð að samkomunni og bjóst við um þúsund gestum.

Viðburðurinn stóð í þrjá daga. Margt var að sjá og hægt að taka þátt í smiðjum, búa til Larp-sverð og búninga og keppt var um þá bestu í Cosplay-búningakeppni. Markmiðið var að kynna frábæran heim ólíkra búningasamfélaga. Unnur segir stóra hópa eigi sér annað líf í búningunum enda stígi þeir úr raunveruleikanum inn í veruleika sem sé mótaður úr hugmyndaheimi þeirra.

Mikilvæg hátíð sem opnar dyr

„Stemningin var svo geggjuð alla helgina,“ segir hún. Spurð hvað stóð upp úr segir hún Star Wars geimskipið hafa verið einstakt og  501st herdeildin veki alltaf mikla athygli. Larparar hafi komið mörgum á óvart með ævintýrakrána og leikina, og svo á sunndeginum hafi DeLorean-glæsikerran, betur þekkt sem tímavélin úr kvikmyndunum Back To The Future, mikla lukku.

Unnur Helga segir hátíð sem þessa mikilvæga. „Hún hefur opnað augu margra fyrir því hvað búningaleikir eru stórt áhugamál. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi innan búningasamfélagsins. Þar finnst gleði sem allir geta notið. Allir geta leikið sér og verið með,“ segir hún og þakkar hópunum sem stóðu að hátíðinni fyrir óeigingjarnt starf.

„Hamingjan og samtakamátturinn var svo mikill. Þau mættu og létu þetta gerast. Það var best við hátíðina.“

Ábendingagátt