Afsláttur af fasteignaskatti

Reglur um tekjutengdan afslátt af fasteignaskatti hjá elli-, örorku- og lífeyrisþegum í Hafnarfirði

1. gr.
Tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum sem eiga lögheimili í Hafnarfirði er veittur afsláttur af fasteignaskatti samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar ár hvert og reglum þessum, sbr. heimild í 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

2. gr.
Rétt til afsláttar eiga íbúðareigendur í Hafnarfirði sem búa í eigin íbúð og

a) eru 67 ára á árinu eða eldri.

b) hafa verið úrskurðaðir 75%  öryrkjar fyrir 1. janúar 2024. Þeir sem eru úrskurðaðir 75% öryrkjar á álagningarári eiga rétt á hlutfallslegri lækkun frá því að örorkumat tók gildi.

c) hafa ekki leigutekjur af viðkomandi húsnæði.

d) hafa ekki fullvinnandi einstakling/einstaklinga aðra en maka búsetta á heimilinu.

Afsláttur nær einungis til þeirrar íbúðar sem viðkomandi sannarlega býr í.

3. gr.
Hjón og fólk í skráðri sambúð fær fullan afslátt þó einungis annar aðilinn uppfylli skilyrði 2. gr. Ef um fleiri en einn íbúðareiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði 1. mgr., er veittur afsláttur til þeirra sem uppfylla skilyrði 2. gr., í samræmi við eignarhluta þeirra.

Verði slit á hjónabandi eða sambúð þá eiga aðilar máls rétt á öðru hvoru eftirtöldu frá og með þeim tíma sem lögskilnaður eða sambúðarslit eru skráð.

a.        Að njóta óbreytts afsláttar út álagningarárið óski þeir þess.

b.       Að vera meðhöndlaðir sem einstaklingar frá og með þeim tíma óski þeir þess, enda  geti þeir með fullnægjandi hætti sýnt aðgreindar sértekjur sínar  sbr. 4. gr.

4. gr.
Afsláttur er tekjutengdur. Afsláttur er hlutfallslegur og miðast við tekjur síðastliðins árs samkvæmt skattframtali. Við útreikning afsláttar í upphafi árs 2024 er stuðst við skattframtal ársins 2023 en afslátturinn er síðan endurskoðaður þegar skattframtal ársins 2024 liggur fyrir. Leiði endurskoðunin til breytinga á afslætti þá breytist hann vegna þeirra greiðslna sem eftir eru á árinu. Ekki er endurreiknað vegna greiðslna fram að því. Til tekna teljast bæði launatekjur (reitur 2.7. á skattframtali) og fjármagnstekjur (reitur 3.10. á skattframtali)  Miðað er við sameiginlegar tekjur hjóna og fólks í skráðri sambúð.

5. gr.
Hafi orðið veruleg breyting á högum umsækjanda er heimilt að víkja frá 2. gr. þessara reglna varðandi búsetu í íbúð og viðmið um tekjumörk sl. árs. og vegna andláts maka.

Hér er einkum átt við sérstök tilvik, s.s. :

a) Þegar maki hefur fallið frá á árinu og tekjur lækkað verulega.

b) Ef um skyndilega örorku er að ræða sem hefur veruleg áhrif til lækkunar tekna.

6. gr.
Tekjumörk breytast árlega í janúar í samræmi við launavísitölu viðmiðunarárs.

Samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 4. janúar2021