Aðgerðir neyðarstjórna á tímum Covid19

Fréttir

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) fundaði fyrir helgi og fór yfir þær aðgerðir sem neyðarstjórnir sveitarfélaganna stóðu fyrir á COVID-19 tímanum í vetur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem jafnframt er formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins setti fundinn og rakti atburðarásina í stuttu máli. Fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu tóku einnig til máls á fundinum.

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) fundaði fyrir helgi og fór yfir þær aðgerðir sem neyðarstjórnir sveitarfélaganna stóðu fyrir á COVID-19 tímanum í vetur. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem jafnframt er formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins setti fundinn og rakti atburðarásina í stuttu máli. Kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna ásamt neyðarstjórnum sveitarfélaganna var boðin seta á fundinum. 

Dagur nýtti tækifærið til að hrósa starfsfólki sveitarfélaganna fyrir vel unnin störf, en mikið hefur mætt á þeirra starfsemi og hafa þau þurft á skömmum tíma að umturna starfseminni, huga að þeim verkefnum sem eru samfélagslega mikilvæg og að órofinni þjónustu. Dagur hrósaði einnig þríeykinu fyrir þeirra framlag og fór sérstaklega yfir hversu jákvætt það hafi verið að þau ákváðu að hafa upplýsingar tíðar og allt ferlið gegnsætt.

Neyðarstjórnir virkjuðu viðbragðsáætlanir í byrjun febrúar

Þann 31. janúar fundaði almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins með sóttvarnalækni þar sem fjallað var um veiruna sem þá gekk undir nafninu Wuhan, voru skilaboðin eftir þann fund að hvetja sveitarfélög til að kalla saman neyðarstjórnir sínar, virkja viðbragðsáætlanir og horfa til áætlunar um heimsfaraldur inflúensu. Einnig var hvatt til að búa alla starfsemi sveitarfélaga undir það að færast af óvissustigi yfir á hættustig.

Hættustigi lýst yfir 28. febrúar þegar fyrsta smit greinist á landinu

Hættustigi var lýst yfir þann 28. febrúar þegar fyrsta smit greinist á landinu og hækkað upp í neyðarstig þann 6. mars og var landið í 80 daga á neyðarstigi. Á þeim tíma fundaði AHS þrisvar sinnum og almannavarnaráð AHS 9 sinnum. Sveitarfélögin og neyðarstjórnir þeirra nýttu tímann frá fundinum í janúar og fram að fyrsta smiti mjög vel til að undirbúa sig sem best og unnu þau þétt saman við að leysa flókin verkefni sem upp komu. Unnið var eftir nokkrum viðbragðsáætlunum áætlunum bæði landsáætlunum sem og sértækum áætlunum. Samvinna var lykilatriði á þessu tíma og það var mikið heillaspor að virkja neyðarstjórnir svo snemma í faraldrinum.

Mikilvægt að vera áfram á varðbergi

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fór yfir þær áskoranir sem við stóðum frammi fyrir sem þjóð og þau verkefni sem eru óleyst í dag eins og opnun landamæranna. Engin reynsla er um þá afléttingu sem þarf að fara fram á landamærum í heiminum í dag. Út frá smitsjúkdómum þá var ótrúlegt hvað faraldurinn fór hratt af stað hér hjá okkur og hvað hann hrundi hratt niður. Hann ítrekaði mikilvægi þess að við tryggðum þann árangur sem við höfðu náð og við verðum að vera á varðbergi varðandi það að fá ný smit inn í landið. Margt er í þróun víða í heiminum og vantar stöðlun t.d. á vottorðum og því mun Ísland ekki taka gild vottorð frá öðrum löndum. Hann ítrekaði mikilvægi þess að við þurfum að opna landamærin en stíga varlega til jarðar.

Stærsta verkefni almannavarna á Íslandi til þessa 

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að verkefnið hafi verið stærsta verkefni almannavarna á Íslandi þar sem allt landið var undir í einu sem og allur heimurinn. Við höfum staðið frammi fyrir heilbrigðismáli af óþekktri stærð og að samfélagsleg áhrif væru gríðarleg. Hann var þakklátur framlagi starfsmanna sveitarfélaga á þessum tímum. Hann þakkaði einnig fyrir allt það fagfólk sem lagðist á árarnar til að leysa þau verkefni sem upp komu, það væri mikilvægt í krísum að vera með valddreifingu byggða á sérfræðiþekkingu.

Mikil gæfa hversu snemma neyðarstjórnir sveitarfélaganna voru kallaðar saman

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins áréttaði að það hafi verið mikil gæfa hversu snemma neyðarstjórnir voru kallaðar saman. Því um leið og sú vinna hófst þá var það hlutverk starfsfólks AHS að aðstoða og styðja við neyðarstjórnirnar sem leiddu starfið allan tímann hvert í sínu sveitarfélagi og féll aldrei skuggi á samstarf og samræmingu þeirra á milli. Hann tók undir það sem fram hafði komið að það hefði verið mikil gæfa hversu vel öll sveitarfélögin hafi unnið saman og aðdáunarvert að sjá hversu öflugir starfsmenn þeirra sem og aðrir starfsmenn sveitarfélaganna voru við erfiðar aðstæður undir styrkri stjórn framkvæmdastjóra sveitarfélaganna sem eru borgarstjóri og bæjarstjórar á svæðinu.

Fulltrúar sveitarfélaganna á svæðinu tóku einnig til máls á fundinum og var rauði þráðurinn í þeirra máli ánægja með upplýsingamiðlun á þessum tíma. Samhugur var um mikilvægi neyðarstjórna og að það hafi verið grundvallaratriði hversu fljótt þær voru virkjaðar.

Samantekt frá Hafnarfjarðarbæ

Vel gekk hjá
Hafnarfjarðarbæ í samkomubanninu. Neyðarstjórn var strax virkjuð og fundaði hún
svo til á hverjum degi. Neyðarstjórnin vann þétt saman með það að markmiðið að halda
úti óskertri þjónustu eins og unnt væri sem og að gæta að líðan starfsfólks. Farið
var að leiðbeiningum frá Almannavörnum í öllum þeim ákvörðunum sem teknar voru.
Þá var farið að leiðbeiningum um sóttvarnir, fjarlægðir og notkun
hlífðarbúnaðar. Lögð var áhersla á að vera með góða upplýsingagjöf til starfsfólks
og íbúa sveitarfélagsins eftir öllum tiltækum leiðum sem og með símhringingum
og heimsóknum til þjónustuþega.

SigridurKristinsdottir_1592263369848Sigríður Kristinsdóttir bæjarlögmaður og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sem jafnframt situr í neyðarstjórn Hafnarfjarðar flutti stutta samantekt fyrir hönd Hafnarfjarðar.

Lítið um smit starfsfólks og nemenda

Fyrsta stóra
ákvörðunin sem tekin var var að fresta árshátíð bæjarins sem átti að vera að
kvöldi 7. mars. Sú ákvörðun var tekin að morgni þess dags. Allir leik- og
grunnskólar sveitarfélagsins voru starfræktir allan tímann. Engum skóla var
lokað. Smit kom upp í einum skóla. Skólanum hafði þá þegar verið skipt upp í
hólf og hélt starfsemin því óskert áfram í öðrum hólfum skólans. Lítið var um
smit innan skólanna en eitthvað um sóttkví nemenda og einstaka starfsmanna.

Þjónusta aðlöguð að breyttum aðstæðum

Vel gekk á
fjölskyldu- og barnamálasviði. Þar eru 11 búsetukjarnar og skammtímavistun sem
er með sólarhringsvakt. Þjónusta var aðlöguð að breyttum aðstæðum og allar viðbragðsáætlanir
virkjaðar. Mötuneyti fyrir eldra borgara var lokað og boðið upp á heimsendan
mat. Sérstök aðgát var í starfi barnaverndar. Þá var einnig gætt að erlendum
íbúum og umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Hólfaskipting og fjarvinnuvaktir á öllum
starfstöðvum

Hafnarfjarðarhöfn
var opin allan tímann en hólfaskipt. Starfsemi gekk vel tekið og var tekið á
móti skipum bæði löndunarskipum og flutningaskipum. Starfsstöðvar í ráðhúsi og að
Norðurhellu 2 voru hólfaðar niður. Hluti bókhalds- og launadeildar flutti í eitt
af húsum Byggðasafns Hafnarfjarðar. Starfsfólk á öllum sviðum skiptist á að
vinna heima og starfsstöð og voru allir fundir í fjarfundi. Mötuneyti ráðhúss
var opið allan tímann en tekin upp matarskömmtun og hólfun.

Þjónustuver og þjónustumiðstöð opin allan tímann

Þjónustuverið
opið allan tímann en var hólfað og starfrækt á tveimur stöðum. Opnunartími var
óbreyttur frá kl. 8 til 16 alla virka daga. Þjónustumiðstöð var einnig opin
allan tímann, en hluti af starfsmönnum var fluttur á aðra starfsstöð í húsnæði
sem vinnuskólinn hefur nýtt. Í samræmi við tilmæli var öllum söfnum lokað sem
og sundlaugum bæjarins um tíma. Bæjarstjórnarfundir, ráðs- og nefndarfundar
voru í fjarfundi.

Þakkir til allra fyrir frábært samstarf á miklum
óvissutímum

Það er vel við
hæfi að nota tækifærið og þakka starfsfólki sveitarfélagins fyrir faglegt
framlag og samstillt samstarf sem einkenndist af æðruleysi og frumkvæði, íbúum
fyrir samvinnu og skilning á öllum sviðum og bæjarstjórn og ráðum Hafnarfjarðar
fyrir gott samstarf við samstillingu nýrra strengja og vinnulags. Samstarf
milli ríkis og sveitarfélaga var þétt og árangursríkt á þessum óvissutíma og
vinna innan SSH góð og árangursrík. Að lokum fá þríeykið margumtalaða og Almannavarnir
mikið þakklæti fyrir að standa í brúnni, samræma aðgerðir og skilaboð og vera ávallt
boðin og búin til að koma til aðstoðar og upplýsingagjafar með stuttum
fyrirvara.

Áfram verðum við öll almannavarnir! 

Ábendingagátt