FH með fótboltaæfingar fyrir börn með fötlun

Fréttir

FH, Hafnarfjarðarbær og Íþróttabandalag Hafnarfjarðar (ÍBH) hafa tekið höndum saman og bjóða frá 15. janúar fótboltaæfingar fyrir börn í 1.-10. bekk. Foreldrar geta skráð börnin sín til leiks á Sportabler.

Fótbolti í FH fyrir börn með fötlun

Börnum með fötlun í 1. til 10. bekk býðst að taka þátt í nýju námskeiði sem FH, Hafnarfjarðarbær og ÍBH standa saman að. Æfingarnar verða á miðvikudögum og föstudögum frá kl. 16-17 í Dvergnum, yfirbyggðu knatthúsi FH.

Iðkendur hitta þjálfara í anddyri Kaplakrika við afgreiðsluna. Æfingagjöldin eru 50 þúsund krónur. Foreldrar geta notað frístundastyrk barnanna. Æft er tvisvar á viku með toppþjálfara og aðstoðarþjálfara.

Geir Bjarnason, íþrótta- og tómstundafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar, bendir á að Haukar hafi boðið börnum að æfa körfuknattleik undir merkjunum Special Olympics. Það hafi gengið vel.

„Það er yfirlýst stefna ríkis og sveitarfélaga að gefa fötluðum börnum færi á að vera í almennum íþróttum. Þarna svarar FH því kalli,“ segir hann.

Æfa með stóru íþróttafélagi

„Það er frábært að börnin fái að tilheyra flottum félögum og geti til dæmis farið í skólann í búningum þeirra sem fullgildir félagar.“

Geir segir fótboltaæfingarnar kærkomið tækifæri fyrir krakkana. „Þau mega mæta og prófa án þess að greiða fyrir. Aðstaðan í Dvergnum er góð,“ segir Geir. „Þarna fá þau að vera á sínum forsendum.“

Örugg og sterk umgjörð

Geir segir mikilvægt að búa börnum með fötlun gott starf og umgjörð svo þau komi og taki þátt. „Þau verða að vera örugg í umhverfinu,“ segir hann. Þekkt sé að börnin byrji mörg hver síðar að æfa íþróttir en ófötluð.

„Ég fagna þessu framtaki FH og ÍBH og bind vonir til að starfið. Við viljum að öll börn stundi íþróttir fyrir félagslega þáttinn,“ segir Geir. „Þarna kynnast þau vinum sínum, hreyfa sig og gera lífið skemmtilegra.“

Ábendingagátt