Áhugi kvenna á tæknigreinum virðist vera að aukast

Fréttir

Á mínu sviði starfa mun fleiri karlar en konur en mér finnst hér ríkja jafnræði þegar horft er til launa, aðbúnaðar og framgöngu í starfi. Rík áhersla er lögð á jafnrétti og jöfn laun kynjanna fyrir sambærileg störf.

Virk hlustun, virðing og vellíðan í starfi

Helga Stefánsdóttir, Hildur Sigþórsdóttir og Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir eiga allar það sameiginlegt að vera öflugir og metnaðarfullir stjórnendur og fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar á sviði umhverfis- og skipulagsmála, fjármála, dagvistunar og menntamála. Helga og Jenný hafa starfað hjá sveitarfélaginu til fjölda ára og búa að gríðarlegri reynslu og þekkingu en Hildur er nýr og ungur stjórnandi sem ber með sér ferska vinda og sér tækifæri til umbóta og vaxtar í hverju horni og þá ekki síst á sviði stafrænnar þróunar. Viðtal við þær birtist í sérblaði Fréttablaðsins um konur í atvinnulífinu miðvikudaginn 26. janúar sem gefið var út í samstarfi við FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu.

Viðtal við Jennýju Dagbjörtu Gunnarsdóttur

Viðtal við Hildi Sigþórsdóttur

Áhugi kvenna á tæknigreinum virðist vera að aukast

„Á mínu sviði starfa mun fleiri karlar en konur en mér finnst hér ríkja jafnræði þegar horft er til launa, aðbúnaðar og framgöngu í starfi. Rík áhersla er lögð á jafnrétti og jöfn laun kynjanna fyrir sambærileg störf,“ segir Helga Stefánsdóttir, forstöðumaður á umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðarbæjar. „Kynjahlutföllin eru smá saman að jafnast samhliða því að aukin og fjölbreyttari þjónusta hefur færst undir sviðið auk þess sem áhugi kvenna á tæknigreinum virðist vera að aukast. Á tímabili var ég eina konan í um 40 manna hópi en þetta hefur breyst mjög mikið með árunum.“ Helga, sem er verkfræðingur og skipulagsfræðingur að mennt, talar um að fleiri konur fari í nám í tæknigreinum en áður og að ekki eigi að láta kyn eða umhverfi hafa áhrif á val sitt til náms eða starfa.

Hóf störf við úttektir hjá byggingafulltrúa en er í dag forstöðumaður framkvæmda

Helga hóf störf hjá bænum fyrir 25 árum við úttektir hjá byggingafulltrúa en er í dag staðgengill sviðsstjóri og forstöðumaður framkvæmda hjá bænum. „Sviðið okkar telur í dag um 50 starfsmenn og ber mín deild ábyrgð á öllum verklegum framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins og rekstri hvort sem það eru götur, húsnæði eða opin svæði,“ segir Helga sem þekkir vel alla uppbygginguna sem er að eiga sér stað í Hafnarfirði þessa dagana, bæði í nýjum hverfum og þéttingu byggðar. Helga kemur einnig að skipulagsmálum sveitarfélagsins og fleiri spennandi verkefnum sem hafa áhrif á allt samfélagið. „Við veltum nokkrum milljörðum á ári í tengslum við þessar framkvæmdir. Vinnudagarnir geta verið ansi langir, áreitið mikið og ákvarðanirnar stórar með tilheyrandi keðjuverkandi áhrifum. Ég er mjög skipulögð að eðlisfari, rökföst og vil að allt mitt starfsfólk fái að njóta sín í sínum verkefnum. Þannig vinnast hlutirnir best. Teymið mitt er öflugt, verkefnaskipting skýr, starfsandinn góður og alltaf gaman að mæta í vinnuna.“

Ábendingagátt