Stolt að vera ung kona í kröfuhörðu starfi

Fréttir

Hafnarfjarðarbær innleiddi nýlega mannauðs- og launakerfið Kjarna og tók Hildur í sínu nýju starfi meðal annars við því kefli að vera potturinn og pannan í þeirri innleiðingu. Kjarni hefur opnað á ný tækifæri og möguleika og verið mikilvægur hlekkur bæði í stafrænni vegferð sveitarfélagsins og við innleiðingu á jafnlaunastaðli.

Virk hlustun, virðing og vellíðan í starfi

Helga Stefánsdóttir, Hildur Sigþórsdóttir og Jenný Dagbjört Gunnarsdóttir eiga allar það sameiginlegt að vera öflugir og metnaðarfullir stjórnendur og fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar á sviði umhverfis- og skipulagsmála, fjármála, dagvistunar og menntamála. Helga og Jenný hafa starfað hjá sveitarfélaginu til fjölda ára og búa að gríðarlegri reynslu og þekkingu en Hildur er nýr og ungur stjórnandi sem ber með sér ferska vinda og sér tækifæri til umbóta og vaxtar í hverju horni og þá ekki síst á sviði stafrænnar þróunar. Viðtal við þær birtist í sérblaði Fréttablaðsins um konur í atvinnulífinu miðvikudaginn 26. janúar sem gefið var út í samstarfi við FKA – Félag kvenna í atvinnulífinu.

Viðtal við Helgu Stefánsdóttur

Viðtal við Jennýju Dagbjörtu Gunnarsdóttur

Stolt af því að vera ung kona í kröfuhörðu starfi

Árið 2019 skrifaði Hafnarfjarðarbær undir viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum Jafnvægisvogar FKA og árið 2022 hlaut sveitarfélagið viðurkenninguna eftir að hafa náð þeim árangri að jafna hlutfall kynja í efsta lagi. „Það er stefna Hafnarfjarðarbæjar að jafna hlutfall kynjanna í störfum hjá bænum og að vinnustaðir bæjarins endurspegli fjölbreytileika samfélagsins. Hæfasti einstaklingurinn er ráðinn hverju sinni óháð kyni en þegar hæfnin er sú sama þá gæti kyn haft áhrif ef það hallar á annað kynið í geiranum. Það var þó ekki tilfellið hjá mér enda konur í miklum meirihluta í minni deild. Ég var einfaldlega hæfust,“ segir Hildur Sigþórsdóttir, deildarstjóri launadeildar hjá Hafnarfjarðarbæ og hlær. Hjá bænum starfa um 2200 starfsmenn á 73 starfsstöðvum. „Fjölbreytileikinn í þjónustu sveitarfélagsins er mikill, stéttarfélögin mismunandi, kjarasamningar ólíkir og störfin fylgja kjarasamningum. Starfið mitt kallar á góða yfirsýn, þekkingu og skilning og kannski ekki síst á hæfni í mannlegum samskiptum og áhuga á fólki.“

Hildur, sem er viðskiptafræðingur að mennt, tók við núverandi starfi í lok árs 2022 en var búin að vera ráðgjafi innan launadeildar síðan 2021. „Ég er enn að koma mér inn í starfið. Ég þekki teymið mitt vel og aðlögunin gengur framar vonum. Við vorum fyrir með frábæran deildarstjóra sem var duglegur að miðla af reynslu sinni og þekkingu. Við sem teymi búum vel að því og ég dugleg að leita í reynslubrunn þeirra sem lengi hafa starfað hjá bænum.“

Kjarni hefur opnað á ný tækifæri og möguleika

Hafnarfjarðarbær innleiddi nýlega mannauðs- og launakerfið Kjarna og tók Hildur í sínu nýju starfi meðal annars við því kefli að vera potturinn og pannan í þeirri innleiðingu. Kjarni hefur opnað á ný tækifæri og möguleika og verið mikilvægur hlekkur bæði í stafrænni vegferð sveitarfélagsins og við innleiðingu á jafnlaunastaðli sem kallar á reglubundna úttekt á launum og kjörum. „Kjarni frá Origo er frábært heildstætt kerfi sem heldur utan um öll mannauðs- og launamál. Kerfið er einstaklega notendavænt og sú staðreynd hefur skipt sköpum fyrir árangursríka innleiðingu sem kallar á þátttöku allra stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar,“ segir Hildur.

Ábendingagátt